04.06.13

Samstarf á sviði lýðheilsu

Sjá stærri mynd

Geir Gunnlaugsson og Dagur B. Eggertsson að lokinni undirritun samstarfssamnings um lýðheilsu milli Embætti landlæknis og Reykjavíkurborgar. Undirritunin fór fram í húsakynnum embættisins að Barónsstíg 47.

Í dag skrifuðu Geir Gunnlaugsson landlæknir og Dagur B. Eggertsson, forseti borgarstjórnar Reykjavíkur og staðgengill Jóns Gnarr borgarstjóra, undir samkomulag um að taka upp markvisst samstarf til heilsueflingar og aukinnar lýðheilsu í Reykjavík.

Samstarfið mun beinast að þremur áherslusviðum: Heilsueflandi samfélagi, heilsueflandi skólum og auknum jöfnuði

Samkomulagið er í samræmi við stefnu Embættis landlæknis um að stuðla að öflugu lýðheilsustarfi í þágu fólks á öllum æviskeiðum. Í stefnuskjali embættisins er m.a. lögð áhersla á eftirfarandi:

  • Ráðleggingar um heilsueflandi samfélag sem styðja stór og smá samfélög í markvissri heilsueflingu með stefnumótun og samræmdum aðgerðum.
  • Leiðbeiningar og gátlistar um mótun heilsustefnu og gerð áætlana um líðan, næringu, hreyfingu, ofbeldis- og slysavarnir, tannvernd, tóbaks-, áfengis- og vímuvarnir.
  • Heilsueflandi leik-, grunn- og framhaldsskólar um land allt.
  • Greining á ójöfnuði m.t.t. heilsu og líðanar og aðgerðaráætlun til að draga úr honum.

Samstarfssamningurinn við Reykjavíkurborg er gott skref í átt að þeim markmiðum sem embættið hefur sett sér um leið og það er jákvætt skref í átt að bættri lýðheilsu í borginni.

Lesa nánar: Samstarf á sviði lýðheilsu. Samkomulag undirritað 4. júní 2013 (PDF)

Dóra Guðrún Guðmundsdóttir
sviðsstjóri

<< Til baka