29.05.13

Lifrarbólga A í Evrópu

Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) hefur vakið athygli á lifrarbólgu A víða í Evrópu sem tengist frostnum berjum. Áður hefur verið fjallað um lifrarbólgutilfelli sem komið hafa upp í Skandinavíu á vef Embættis landlæknis. Einnig hafa komið upp smit sunnar í Evrópu sem eiga rætur sínar að rekja til Norður-Ítalíu, einkum héraðanna Trento og Bolzano. Ekki er talið að þessi smit eigi sameiginlegan uppruna.

Sóttvarnalæknir vill vekja athygli ferðamanna sem hyggjast heimsækja Norður-Ítalíu á næstunni að hægt er að koma í veg fyrir lifrarbólgu A með bólusetningu. Til að fá bólusetningu þurfa ferðamenn að setja sig í samband við sinn heimilislækni eða heilsugæslustöð tímanlega fyrir fyrirhugaða ferð.

Einnig vill sóttvarnalæknir hvetja ferðamenn til að neyta ekki frosinna berja frá ofangreindum svæðum og gæta fyllsta hreinlætis á ferðum sínum.

Sóttvarnalæknir

<< Til baka