Alþjóðadagur hreyfingar er í dag, 10. maí
Alþjóðadagur hreyfingar (Move for Health Day) hefur verið haldinn árlega síðan árið 2002. Megintilgangur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) með deginum er að hvetja aðildarþjóðirnar til að minna á fjölþætt mikilvægi hreyfingar fyrir heilsu og vellíðan og hvetja einstaklinga, samfélög og þjóðir til aðgerða á sviði hreyfingar.
Rannsóknir staðfesta að regluleg hreyfing eykur ekki aðeins líkurnar á að lifa lengur heldur einnig að lifa lengur við betri lífsgæði samanber meðfylgjandi töflu.
Kyrrseta er fjórða algengasta orsök ótímabærra dauðsfalla og veldur árlega um 3.2 milljónum dauðsfalla á heimsvísu. Kyrrseta er t.d. talin orsaka á heimsvísu um 6% kransæðasjúkdóma, um 7% tilfella af sykursýki af tegund 2, um 10% brjóstakrabbameina og um 10% ristilkrabbameina með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélög.
Dæmi um fjölþætt mikilvægi hreyfingar fyrir heilsu og vellíðan á öllum æviskeiðum. |
Börn og unglingar |
· Betra þol og vöðvastyrkur · Betri beinheilsa · Stuðlar að heilsusamlu holdafari · Minni einkenni þunglyndis |
Fullorðnir og roskið fólk |
· Minni hætta á ótímabærum dauða · Minni hætta á kransæðasjúkdómum, heilablóðfalli og háþrýstingi · Minni hætta á sykursýki af tegund 2 · Stuðlar að heilsusamlegu holdafari · Minni hætta á blóðfitubrenglun · Minni hætta á sumum krabbameinum t.d. ristilkrabbameini og brjóstakrabbameini · Betra þol og vöðvastyrkur · Betri færni, hugræn geta og minni hætta á föllum og mjaðmabrotum hjá rosknu fólki · Aukin beinþéttni · Minni einkenni þunglyndis · Betri svefn |
Hreyfing hefur reynst árangursríkur og hagkvæmur valkostur í meðferð margra sjúkdóma og annarra heilsufarsvandamála, s.s. kransæðasjúkdóma, stoðkerfisvandamála, þunglyndis og kvíða. Í samræmi við það er notkun hreyfiseðla smám saman að verða algengari í íslenska heilbrigðiskerfinu.
Eins og sjá má er dagleg hreyfing öllum mikilvæg, óháð kyni, aldri, holdafari, líkamlegri eða andlegri getu.Þrátt fyrir það hreyfir stór hluti Íslendinga á öllum æviskeiðum sig ekki nóg, samanber ráðleggingar um hreyfingu.
Hvers vegna? Þar hafa áhrif ótal þættir sem snúa að einstaklingunum sjálfum og einnig þeirra nánasta umhverfi . Margt jákvætt hefur áunnist og í því samhengi er t.d. nærtækt að nefna þá jákvæðu þróun sem orðið hefur varðandi notkun fólks á virkum ferðamáta, s.s. göngu og hjólreiðum. Samhliða hefur ríkið og mörg sveitarfélög verið að leggja meira af mörkum til að bæta aðstæður fyrir slíkan ferðamáta.
Mikilvægt er að halda áfram á sömu braut og að hagsmunaaðilar á öllum stigum samfélagsins taki enn frekar höndum saman um að stuðla að aukinni hreyfingu landsmanna á öllum æviskeiðum. Það er samstarf sem er líklegt til að skil verulegum ábata fyrir einstaklinga, fjölskyldur og samfélagið í heild sinni.
Gígja Gunnarsdóttir
verkefnastjóri hreyfingar