18.03.13

Alþjóðlegi hamingjudagurinn 20. mars 2013

Alþjóðlegi hamingjudagurinn verður haldinn í fyrsta sinn þann 20. mars næstkomandi. Dagurinn er haldinn að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna og er markmiðið með honum að vekja athygli á hamingju sem mikilvægu takmarki fyrir einstaklinga og stjórnvöld.

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna viðurkennir hamingju og vellíðan sem sammannlegt grundvallarmarkmið. Hvetur þingið aðildarríkin til að leggja enn meiri áherslu á mikilvægi þess að leita að hamingju og vellíðan og að þessi atriði séu höfð til hliðsjónar við ákvarðanir stjórnvalda. Allsherjarþingið samþykkti ályktun þessa efnis í júní 2012 (sjá neðst í fréttinni).

Embætti landlæknis býður fjölmiðlum til stuttrar kynningar á Alþjóðlega hamingjudeginum í leikskólanum Vinagarði, við Holtaveg 28 í Reykjavík, miðvikudaginn 20. mars kl. 10:00. Þar munu Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Geir Gunnlaugsson landlæknir flytja ávarp ásamt því sem niðurstöður nýrrar könnunar á hamingju Íslendinga verða kynntar.

Einnig verða kynntar Fimm leiðir að vellíðan, sem Embættið hefur gefið út í tilefni af Alþjóðlega hamingjudeginum, og fela í sér fimm einföld skref fyrir unga sem aldna í átt að meiri hamingju og betri líðan (sjá hér að neðan).

 

Lesa nánar:

Sigrún Daníelsdóttir
verkefnisstjóri geðræktar
sigrun@landlaeknir.is

<< Til baka