03.01.13

Borðum meiri fisk á nýju ári

Sjá stærri mynd

Nú þegar jól og áramót eru að baki er um að gera að fagna nýju ári með því að hafa fisk oftar á borðum. Fiskur er nefnilega mjög heilsusamlegur matur fyrir alla aldurshópa.

Fiskur er góður próteingjafi og í honum eru ýmis önnur næringarefni, svo sem selen og joð. Feitur fiskur er einnig auðugur af D-vítamíni og löngum ómega-3 fitusýrum, en þessi næringarefni eru í fáum öðrum matvælum en sjávarfangi. Sérstaklega er mikilvægt að fá nóg D-vítamín yfir vetrarmánuðina.

Rannsóknir á heilsufarsbætandi áhrifum sjávarfangs hafa einkum beinst að ómega-3 fitusýrum en bæði feitur og magur fiskur virðist hafa jákvæð áhrif á heilsuna og það eru trúlega fleiri en eitt innihaldsefni þar að verki. Þess vegna er æskilegt að borða bæði feitan og magran fisk.

Samkvæmt niðurstöðum landskönnunar á mataræði frá 2010–2011 var fiskneyslan á Íslandi svipuð að magni til og hún var árið 2002. Rétt eins og þá er mikill munur á fiskneyslu eftir aldri og yngra fólkið borðar helmingi minna af fiski en þeir eldri.

Í ráðlegginum er mælt með því að fiskur sé á borðum tvisvar í viku eða oftar sem aðalmáltið. Aðeins um helmingur þátttakenda náði því markmiði. Konur á aldrinum 18–30 ára borða aðeins 26 grömm af fiski á dag að meðaltali, sem samsvarar einni fiskmáltið á sex daga fresti, og fiskneysla unglinga er svipuð.

Það er því mikilvægt að huga sérstaklega að fiskneyslu yngra fólks og getur þar hjálpað að matreiða fiskinn á þann hátt að það falli að smekk þess aldurshóps. Lýðheilsustöð (nú Embætti landlæknis) gaf fyrir nokkrum árum út bæklinginn Borðum meiri fisk með ýmsum góðum fiskuppskriftum sem gætu hentað þessum hópi. Má sem dæmi nefna uppskrift af Tex-mex ýsu með tortilla-pönnukökum, tandoori fisk og indverksan fiskrétt.

 

Ráðleggingar um fiskneyslu

  • Að minnsta kosti tvær fiskmáltíðir á viku en gjarnan meira.
    Algengur skammtur af fiski er um 150 grömm og ágætt er að reikna með því að fiskneysla sé að minnsta kosti 300 grömm á viku. Gjarnan má þó borða meiri fisk.
     
  • Til viðbótar við fisk sem aðalmáltíð er harðfiskur góður kostur ásamt áleggi og salötum úr fiski. 

Ítarefni:

Ráðleggingar um mataræði og næringarefni
Bæklingurinn Borðum meiri fisk

Hólmfríður Þorgeirsdóttir
Elva Gísladóttir
verkefnisstjórar næringar

<< Til baka