10.12.12

Aukin vitund um afleiðingar kynferðisofbeldis

Sjá stærri mynd

Í dag, 10. desember, gefur Embætti landlæknis út fræðsluefni um kynferðisofbeldi í samstarfi við Neyðarmóttöku vegna kynferðisofbeldis, Öðlingsátakið og Reykjavíkurborg. Efnið er gefið út á lokadegi „16 daga átaksins gegn kynbundnu ofbeldi“, alþjóðlegs átaks sem er haldið í 22. skipti á heimsvísu.

Bæklingurinn fjallar um algeng viðbrögð við kynferðisofbeldi, en auk hans koma út spjald og límmiðar með upplýsingum um þá þjónustu sem Neyðarmóttakan veitir.

Dr. Berglind Guðmundsdóttir, verkefnisstjóri áfallateymis bráða- og geðssviðs og settur yfirsálfræðingur við Landspítala, og Eyrún Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur og verkefnisstjóri Neyðarmóttöku vegna kynferðisofbeldis, sömdu efnið. Embætti landlæknis fagnar samstarfi við alla þá sem komu að vinnu við þetta mikilvæga málefni.

Alvarlegt lýðheilsuvandamál

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin lítur á kynferðisofbeldi sem alvarlegt lýðheilsuvandamál á heimsvísu, þar sem það er bæði algengt og getur haft alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar.[1] Rannsóknir hafa sýnt að kynferðisofbeldi er víðtækt vandamál hér á landi líkt og erlendis.

Íslenskar rannsóknir benda til að 6% drengja og 18% stúlkna verði fyrir kynferðisofbeldi fyrir 16 ára aldur [2] og að fjórðungur kvenna verði fyrir kynferðisofbeldi eftir 16 ára aldur.[3] Skortur er á rannsóknum sem kanna algengi kynferðisofbeldis hjá íslenskum karlmönnum.

Embætti landlæknis vonar að útgáfa efnisins verði til þess að auka vitund þolenda kynferðisofbeldis um þá heilbrigðisþjónustu sem stendur þeim til boða. Það er sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að talið er að aðeins hluti þeirra greini frá reynslu sinni og leiti aðstoðar.

Bæklingur

Markmið bæklingsins Áfallaviðbrögð við kynferðisofbeldi er að veita þolendum kynferðisofbeldis og aðstandendum þeirra upplýsingar um algeng viðbrögð við ofbeldinu og leiðir til að takast á við þau. Bæklingnum verður dreift á heilsugæslustöðvar um land allt og víðar.

Von okkar er sú að bæklingurinn veiti innsýn inn í þau margvíslegu viðbrögð sem geta komið fram eftir áfallið. Fræðslan er einnig hugsuð sem forvörn og er vonast til að hún auki líkur á að þolendur leiti sér aðstoðar ef áfallaviðbrögðin þróast í langvarandi heilsfarsvandamál.

Hægt er að nálgast .pdf-útgáfu af bæklingnum hér, og fletta honum neðar á þessari síðu.

Spjöld í framhaldsskóla

Mikilvægt er að þolendur kynferðisofbeldis séu upplýstir um þá þjónustu sem Neyðarmóttöka vegna kynferðisofbeldis veitir, svo sem stuðning, meðferð og læknisskoðun. Þá er sérstaklega mikilvægt að ná til yngri kynslóðarinnar, en rannsóknir benda til að algengast sé að fólk verði fyrir kynferðisofbeldi fyrir 25 ára aldur.

Þessar tölur eru í samræmi við tölur frá Neyðarmóttökunni, en 69% þolenda sem leita þangað eru 25 ára eða yngri.[4]

Til að auka vitund ungs fólks á þjónustu Neyðarmóttökunnar eru gefin út spjöld sem dreift verður í öllum framhaldsskólum landsins með upplýsingum um þjónustu hennar.

Límmiðar á skemmtistaði

Límmiðum á íslensku, ensku og pólsku með upplýsingum um þá þjónustu sem Neyðarmóttakan veitir verður dreift á almenningsstaði. Í samstarfi við Reykjavíkurborg og kráareigendur í borginni verður þeim einnig dreift á skemmtistaði, kaffihús og veitingastaði.

Edda Björk Þórðardóttir

 

 

Heimildir

1. Jewkes, R., Sen, P., og Garcia-Moreno, C. (2002). World report on violence and health. Chapter 6. Sexual violence. Genf: World Health Organization.

2.Gault-Sherman, M., Silver, E., og Sigfusdottir, I. D. (2009). Gender and the associated impairments of childhood sexual abuse: A national study of Icelandic youth. Social Science & Medicine, 69(10), 1515–1522.

3. Elísabet Karlsdóttir og Ásdís A. Arnalds (2010). Rannsókn á ofbeldi gegn konum. Reynsla kvenna á aldrinum 18–80 ára á Íslandi. Reykjavík: Rannsóknarstofnun í barna-og fjölskylduvernd.

4. Gisladottir A, Gudmundsdottir B, Gudmundsdottir R, Jonsdottir E, Gudjonsdottir GR, Kristjansson M, et al. (2012). Increased attendance rates and altered characteristics of sexual violence. Acta Obstet Gynecol Scand. 91(1), 134-42.

<< Til baka