07.05.05

Áfengi - aðgengi - áhrif

Á nýafstöðnum fundi Evrópudeildar Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) var lýst yfir áhyggjum vegna aukinnar áfengisneyslu. Fram kom að áfengisneysla í heiminum er mest í Evrópu og að dauðsföllum, sem rekja má til áfengis, fjölgaði um 15% á milli áranna 2000 og 2002. Áætlað er að árið 2002 megi rekja orsök 1.8 milljón dauðsfalla (þar af 600.000 í Evrópu einni) til áfengisneyslu eða 3.2% af dauðsföllum í heiminum [1].

Árið 2000 var áfengi í þriðja sæti af 27 helstu áhættuþáttum sem orsök dauðsfalla og sjúkdóma í heiminum, samkvæmt skýrslu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar[1] en alls er talið að áfengi hafi áhrif á allt að 60 skilgreinda sjúkdóma og heilbrigðisvandamál [2]. Í ljósi þeirrar skaðsemi sem áfengi veldur er ljóst að áfengi er ekki venjuleg söluvara og því ekki sjálfgefið að sala þess lúti sömu lögmálum og sala hverrar annarrar neysluvöru.

Rætt er um að breyta fyrirkomulagi áfengissölu hérlendis og m.a. vísað í fyrirkomulag í löndum Vesturevrópu. Á Alþingi liggja m.a. fyrir tillögur þess efnis að lækka lámarksaldur til áfengiskaupa úr 20 árum í 18 ár og að áfengi, að 22% að styrkleika, verði selt í ákveðnum verslunum. En hver er reynsla annarra þjóða samkvæmt fyrirliggjandi rannsóknum?

Fjöldi rannsókna sýnir að aðeins lítil aukning á aðgengi að áfengi er líkleg til að auka áfengisneyslu[3]. Með samræmdri stigagjöf hefur verið metið aðhald ríkja í áfengismálum fyrir þætti sem ná til framleiðslu, dreifingar, aldursmarka til áfengiskaupa, auglýsinga, ölvunaraksturs og stefnumótunar[4]. Niðurstöðurnar sýna að á síðustu 50 árum hafa mörg lönd í Vesturevrópu aukið aðhald í áfengismálum, sérstaklega þau lönd þar sem aðhaldið var sem minnst áður. Á sama tíma hefur nokkuð dregið úr aðhaldi í Svíþjóð og Finnlandi, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Tilslakanir leiða til aukinnar neyslu
Í bókinni Alcohol no Ordinary Commodity2 er bent á að fyrir liggja sterk sönnunargögn þess efnis að tilslakanir á einkasölu ríkis á áfengi séu til þess fallnar að auka sölu og þar með neyslu áfengis. Meðal annar hefur rannsókn á áhrifum breytinga á áfengissölu í Bandaríkjunum sýnt að þegar einokun á sölu áfengis er aflétt og áfengi selt í einkareknum verslunum þá hefur áfengisneysla aukist um 15-150% í kjölfarið[5].

Samskonar breytingar hafa m.a. orðið í Svíþjóð, Finnlandi og Kanada. Í Finnlandi jókst til að mynda sala á áfengi um 46% (reiknað í hreinum vínanda) árið 1969 eftir að aðgengi að því var aukið, m.a. með því að selja bjór í matvöruverslunum. Aukning á sölu er oft mjög mikil fyrstu mánuði eftir slíka breytingu en gengur svo að hluta til baka. Aukinnar neyslu gætir þó jafnan til lengri tíma, jafnvel eru dæmi um að söluaukning hafi verið viðvarandi eftir að breytingar á sölufyrirkomulagi hafi gengið til baka.[6]

Í tveimur sveitarfélögum í Svíþjóð var á árunum 1967-8 gerð var tilraun með sölu á sterkum bjór (hámark 5.6%) í verslunum. Á fyrstu sex mánuðum tilraunarinnar hafði sala á áfengi nánast tífaldast. Aukning á sölu sterks bjórs var 1124% í þessum sveitarfélögum en 30% í samanburðarsveitarfélögum

Mikil áfengisneysla skaðar heilsu og samfélag - þetta hafa margar rannsóknir sýnt. Aukin áfengisneysla mun því að öllum líkindum auka þessi vandamál. Áfengisneysla hefur auk þess bein og óbein áhrif á tíðni slysa og ofbeldis. Þá er ótalinn ýmiss annar félagslegur vandi og kostnaður sem rekja má til áfengisneyslu. Þannig varð til að mynda áðurnefnd aukning á áfengisneyslu í Finnlandi til þess að áfengistengd dauðsföll og innlagnir á sjúkrahús jukust til muna strax á fyrsta ári eftir breytingarnar.

Í samantekt á 132 birtum rannsóknum kom í ljós að engin aðgerð eða átak í Bandaríkjunum hefur haft meiri áhrif á að minnka unglingadrykkju en að hækka lámarksaldur til áfengiskaupa. Í Bandaríkjunum er lámarksaldur til áfengiskaupa víðast hvar 21 ár [7]. Einnig sýna rannsóknir að hækkun lámarksaldurs til áfengiskaupa fækkaði umferðaslysum í Bandaríkjunum um 11-16% meðal ungs fólks [2].

Breytingar á aðgengi að áfengi hafa áhrif á áfengisneyslu - þetta sýna fjöldi rannsókna með sannfærandi hætti. Engin getur sagt fyrir með öruggri vissu hverjar yrðu afleiðingarnar af breyttu aðgengi að áfengi hérlendis. Hvorki þeir sem eru fylgjandi breytingum né þeir sem eru andvígir. Rök fyrir breyttu fyrirkomulagi áfengissölu eru m.a. aukin samræming og aukið frelsi einstaklingsins . En áfengismál snúast um fleira en frelsi einstaklinga til áfengiskaupa þau snerta allt samfélagið. Reynsla annarra þjóða bendir til að aukin sala áfengis muni hafa umtalsverð skaðleg áhrif á samfélagið sem þarf að taka tillit til við stefnumótun áfengismála.. Það er því mikilvægt að þegar teknar eru ákvarðanir um veigamiklar breytingar í áfengismálum að hugað sé að þekktum afleiðingum slíkra breytinga og að þannig séu til greina teknar fleiri hliðar á þessu máli en þær sem snúa að frelsi einstaklingsins og markaðarins.

Mynd 1

Höfundar:
Haukur Þór Haraldsson, sviðsstjóri verkefnasviðs, Lýðheilsustöð
Rafn M. Jónsson, verkefnisstjóri áfengis- og vímuvarna, Lýðheilsustöð
Stefán Hrafn Jónsson, verkefnisstjóri rannsókna- og þróunarsviðs, Lýðheilsustöð

[1] Alþjóða heilbrigðistofnunin (2002) The World Health Report 2002

[2] Babor, T. og fleiri (2003). Alcohol: No Ordinary Commodity. Oxford - New York, Oxdford University Press

[3] Ashe, M.,    D. Jernigan,  R. Kline,  R. Galaz (2003) Land use planning and the control of alcohol, tobacco, firearms, and fast food restaurants  American Journal of Public Health 93(9) bls 1404-1408

[4] Österberg, E. og Karlsson, T. (2002)  Alcohol policies in the ECAS countries, 1950-2000 í Thor Norström (Ritstj.) Alcohol in Postwar Europe bls. 11-48. Stokkhólmur, National Institute of Public Health

[5] Wagenaar, A. C.  og Holder, H. D. (1995) Changes in alcohol consumption resulting from the elimination of retail wine monopolies: Result from five U.S. states. Journal of Studies on Alcohol 56, 566-72

[6] Mäkelä, P. og fleiri  (2002) Who Drinks more and less when policies changes? The evidence from 50 years of Nordic studies NAD Publication 42, 17-70

[7] Wagenaar, A. C.  og Toomey, T. L.  (2000)  Alcohol Policy: gaps between legislative action and current research.

<< Til baka