13.02.06

Tölum saman - samskipti foreldra og barna um kynlíf

Komnir eru út tveir nýir fræðslubæklingar um kynlíf og kynhegðun unglinga, annars vegar Kynlíf - unglingar og hins vegar Samskipti foreldra og barna um kynlíf.

Annars vegar er um að ræða bækling sem ætlaður er foreldrum og nefnist Samskipti foreldra og barna um kynlíf. Í honum er meðal annars fjallað um mikilvægi þess að börn og unglingar fræðist um kynlíf, þroska barna á hinum ýmsu aldursskeiðum og leiðir fyrir foreldra til að ræða um kynlíf við börn og unglinga.

Hins vegar bækling fyrir unglinga sem nefnist Kynlíf - unglingar. Í honum er meðal annars skrifað um rétt unglinga í kynlífi, bjartar og dökkar hliðar kynlífs og hvert hægt sé að leita til að fá upplýsingar um kynlíf.

Höfundar bæklinganna eru þær Dagbjört Ásbjörnsdóttir, mannfræðingur og MA í kynlífs- og kynjafræðum, Guðbjörg Edda Hermannsdóttir, félagsráðgjafi og Sigurlaug Hauksdóttir, félagsráðgjafi, MA í uppeldis- og menntunarfræði.

Að útgáfunni standa Fræðslusamtök um kynlíf og barneignir (FKB), Lýðheilsustöð, Forvarnarnefnd Reykjavíkurborgar og Landlæknisembættið. Bæklingarnir eru hannaðir af Gunnari Þór Arnarsyni.

Höfundarnir ákváðu að ráðast í gerð bæklinganna í kjölfar fræðslufunda um kynlíf og kynhegðun unglinga, sem þeir hafa verið með frá haustinu 2002 fyrir foreldra og nemendur í 7. - 10. bekk í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu og síðar víðar um landið. Fræðslu sína kalla þeir: Tölum saman - samskipti foreldra og barna um kynlíf. Við þessi fundarhöld komust höfundar að því að brýn þörf er fyrir fræðsluefni um þetta málefni og réðust því í gerð bæklinganna tveggja.

Frekari upplýsingar veitir Guðbjörg Edda Hermannsdóttir, sími: 846 6664. Netfang: geh2@hi.is

Bæklingarnir eru ókeypis og munu höfundar vera með þá á fræðslufundum sínum en jafnframt er hægt að panta bæklingana og fá um þá frekari upplýsingar hjá Lýðheilsustöð.

Panta Samskipti foreldra og barna um kynlíf

Panta Kynlíf - unglingar

<< Til baka