02.10.07

Misnotkun lyfja til að sljóvga fórnarlömb í nauðgunarmálum

Grunur um misnotkun lyfja til að sljóvga fórnarlömb í nauðgunarmálum hefur ekki verið staðfestur hér á landi.

Nauðganir eru meðal svívirðilegustu ofbeldisverka sem framin eru og rétt að leita allra leiða tl að þess að koma í veg fyrir þær.

Fjölmörg lyf og vímuefni hafa þá verkun eða aukaverkun að sljóvga einstaklinginn sem neytir þeirra. Hér er um að ræða bæði lögleg og ólögleg efni. Umræður hafa skapast í fjölmiðlum á síðustu mánuðum, þar sem talið er að eftirritunarskylda svefnlyfið flunitrazepam sé misnotað af nauðgurum og öðrum ofbeldismönnum til þess að sljóvga fórnarlambið, t.d. með því að lauma því í drykki. Því þótti ástæða til þess að kanna þessi mál ofan í kjölinn og leita upplýsinga frá lögreglu, neyðarmóttöku Landspítala og frá Rannsóknastofu Háskólans í lyfjafræði, auk þess sem leitað var í erlendum fræðigreinum um efnið.

Samkvæmt upplýsingum frá ofangreindum aðilum hér á landi hefur lyfið aldrei fundist í sýnum frá fórnarlömbum í nauðgunarmálum.

Í erlendum vísindagreinum um þessi efni kemur fram að tiltölulega sjaldgæft sé að læknislyf séu notuð í þessum tilgangi. Flunitrazepam sker sig þar ekki úr, jafnvel í þeim tilvikum þar sem fórnarlömbin telja að svo kunni að hafa verið og sérstaklega er eftir því leitað í sýnum innan þess tíma sem það á að greinast, en eftir inntöku 1 mg af flunitrazepami má finna það í þvagi í 2 - 4 sólarhringa. Oftar en ekki reynist áfengisprósentan sjálf nægileg til þess að skýra minnisleysið, en kannabis er næstalgengast í þessum sýnum.

Grein sem birtist í ágúst 2006 um lögleg og ólögleg lyf sem leitað var eftir um þriggja ára tímabil í rúmlega eitt þúsund nauðgunarmálum í Bretlandi hefur vakið talsverða athygli. (Scott-Ham M, Burton, FC. "Toxicological Findings in Cases of Alleged Drug Facilitated Sexual Assault in the United Kingdom over a 3-year period". Journal of Clinical Forensic Medicines (13(3):107-11)). Niðurstaða rannsóknarinnar var sem hér segir:

"There is no evidence that flunitrazepam has been used for this type of crime in the UK over the 3-year study period and, in fact, it is other drugs of the benzodiazepine class that have been detected rather than flunitrazepam. However, flunitrazepam should still be considered as a drug that could be used in this type of crime".

Í nýju blaði sænsku læknasamtakanna (Läkartidningen nr. 37, 12.-18. september 2007) er ítarlega farið yfir það sem vitað er um þessi efni og er slegið upp á forsíðu undir fyrirsögninni: "Våldtäktsdroger - mer myt än verklighet" (Nauðgunarlyf - fremur þjóðsaga en veruleiki), en greinin sjálf er eftir Kai Knudsen, dósent og yfirlækni við háskólasjúkrahúsið í Gautaborg. Greinin, sem ber heitið "Spetsade drinkar och droger vid våldtäkt - mer myt än verklighet", byggir á niðurstöðum rannsókna sem birst hafa í alþjóðlegum tímaritum.

Landlæknir mun í dreifibréfi til lækna vekja athygli á að læknislyf almennt kunni að einhverju leyti að vera misnotuð á þann hátt sem að ofan greinir og ítreka að gæta sérstakrar varúðar við útskrift róandi lyfja og svefnlyfja almennt. Lyfjastofnun og landlæknir telja hins vegar ekki ástæðu til að taka flunitrazepam af markaði.

Lyfjastofnun
Landlæknir

<< Til baka