04.11.08

Sigurður Guðmundsson landlæknir lætur af störfum

Hinn 1. nóvember 2008 lét Sigurður Guðmundsson af starfi sem landlæknir eftir tíu ár í embætti. Sigurður hverfur nú til starfa við Háskóla Íslands þar sem hann tekur við stöðu forseta nýstofnaðs heilbrigðisvísindasviðs.

Sigurður Guðmundsson tók við starfi landlæknis 1. desember 1998 af Ólafi Ólafssyni og er fjórtándi læknirinn sem gegnir stöðu landlæknis frá upphafi, en embætti landlæknis var stofnað árið 1760. Sigurður hefur í embættistíð sinni lagt mikla áherslu á að efla forvarnir, ekki síst forvarnir gegn geðrænum sjúkdómum. Meðal verkefna á því sviði sem hann beitti sér fyrir var að ýta úr vör forvarnarverkefninu Þjóð gegn þunglyndi sem hefur verið starfrækt hjá embættinu síðan 2002. Þá hefur hann breytt gæðaeftirliti embættisins á þann veg að skipulegar er nú unnið að þeim málum en áður var og ýmsar umbætur hafa verið gerðar á sviði heilbrigðistölfræði.

Matthías Halldórsson, sem verið hefur aðstoðarlandlæknir síðastliðin 18 ár, tekur nú tímabundið við embætti landlæknis. Hann hefur áður gegnt starfi landlæknis um eins árs skeið, 2006-2007, þegar hann leysti Sigurð Guðmundsson af meðan hann var í leyfi frá störfum. Kristján Oddson, yfirlæknir hjá embættinu, mun gegna starfi aðstoðarlandlæknis tímabundið, en hann gegndi því starfi áður árin 2006-2007. Þessi skipan verður á höfð meðan embætti landlæknis og aðstoðarlandlæknis hafa ekki verið auglýst.

Landlæknisembættið færir Sigurði Guðmundssyni alúðarþakkir fyrir störf hans í þágu embættisins og heilbrigðismála á Íslandi.

Matthías Halldórsson

landlæknir

<< Til baka