11.01.10

Fæðuframboð á Íslandi 2008 - Verulegur samdráttur á ávöxtum og grænmeti

Sjá stærri mynd
Sjá stærri mynd

Tölur um fæðuframboð á Íslandi fyrir árið 2008.
Lýðheilsustöð birtir reglulega upplýsingar um fæðuframboð á Íslandi og þó þær veiti ekki beinar upplýsingar um neyslu gefa þær vísbendingar um þróun á mataræði þjóðarinnar.

Tölurnar eru reiknaðar í kg/íbúa/ár samkvæmt jöfnunni: fæðuframboð=framleiðsla + innflutningur - útflutningur - önnur not (t.d. í dýrafóður). Fæðuframboðið nær í flestum tilfellum til lítið unninnar vöru t.d. er kjöt gefið upp í heilum skrokkum með beini, fiskur er gefinn upp óslægður en í stöku tilfellum er um fullunnar vörur að ræða t.d. mjólk, mjólkurvörur og smjörlíki. Tölurnar taka ekki tillit til rýrnunar sem verður við framleiðslu, á lagerum, í verslunum og á heimilum.

Samdráttur á framboði ávaxta og grænmetis

Ef litið er á þróun mataræðis síðastliðið ár kemur í ljós að ferskir ávextir dragast verulaga saman eða um 6,6 kg/íbúa en ávaxtavörur haldast nær óbreyttar. Ferskt grænmeti minnkar einnig um 2,3 kg/íbúa og grænmetisvörur um 2,6 kg/íbúa. Þetta er ekki góð þróun þar sem markmiðið 5 skammtar eða 500 grömmum af grænmeti og ávöxtum á dag verður enn fjarlægara.

Meira skyr

Skyr eykst milli ára en osturinn helst nær óbreyttur. Ekki fengust sambærilegar upplýsingar um mjólk og aðrar mjólkurvörur fyrir árið 2008 eins og verið hefur og eru þær því ekki birtar hér. Mælt er með tveimur skömmtum af fitulitlum og lítið sykruðum mjólkurvörum daglega fyrir fullorðna og börn frá tveggja ára aldri.

Minni sykur

Sykurinn minnkar lítillega eða um eitt kíló á milli ára og er í rúmum 47 kg/íbúa. Sykurneysla á Íslandi er mjög mikil borið saman við önnur norðurlönd eða rúm 900 g á íbúa á viku. Gosdrykkir eiga drjúgan þátt í hinni miklu sykurneyslu en gosdrykkjaneysla er óhóflega mikil hér á landi og var framboðið 1501 lítrar/íbúa árið 2008. Það er hins vegar jákvætt að vatnsdrykkir hafa aukist umtalsvert síðustu ár. Sælgæti eykst heldur milli ára en hafði nánast staðið í stað árið áður. Gosdrykkir og sælgæti eiga vafalítið sinn þátt í aukinni tíðni offitu hér á landi. Fleiri og fleiri rannsóknir renna stoðum undir það að mikil drykkja sykraðra gos- og svaladrykkja, auki líkurnar á ofþyngd og offitu og því er ráðlagt að takmarka neyslu þessara drykkja. Auk þess sem þeir geta valdið tannskemmdum og glerungseyðingu.

Kjötneyslan stöðug

Kjötneyslan helst nokkuð óbreytt milli ára, þó er örlítil aukning á svínakjöti. Mest er neyslan á kjúklingakjöti, 24,4 kg/íbúa/ár en þar á eftir fylgir lambakjötið, 23,1 kg/íbúa á ári. Ekki eru birtar upplýsingar fyrir fisk fyrir 2008 en rétt er að minna á að landsmönnum er ráðlagt að borða fisk a.m.k. tvisvar í viku sem aðalrétt og einnig sem álegg á brauð.

Lítilsháttar aukning á feitmetisneyslu

Heildar feitmetisneyslan eykst lítillega árið 2008 og er það aukning á olíum og öðru feitmeti en smjörlíki stendur í stað. Samanlögð neysla á smöri, smjörva, létt og laggóðu og klípu stendur einnig í stað. Mikil áhersla er lögð á að draga úr neyslu á harðri fitu en velja fremur olíu eða mjúka fitu og jafnframt að stilla neyslu á fitu og feitum matvörum í hóf.

Lýðheilsustöð vekur jafnframt athygli á því að fæðuframboðstölur fyrir öll Norðurlöndin, frá árinu 1990, hafa verið birtar í Norrænni hagtöluárbók (Yearbook of Nordic Statistics) sem hægt er að skoða á vef Hagstofu Íslands en hún er einnig fáanleg þar.

 

<< Til baka