14.01.11

Veldur bólusetning gegn svínainflúensu drómasýki?

Undanfarið hefur talsverð umræða farið fram um hvort bólusetning gegn svínainflúensu geti valdið drómasýki.

Af því tilefni vill sóttvarnalæknir árétta eftirfarandi:

  • Drómasýki er mjög sjaldgæfur sjúkdómur og árlega má búast við að um 1 tilfelli af 800.000 börnum yngri en 18 ára greinist.
  • Orsakir drómasýki eru óþekktar en talið er að samspil erfða og utanaðkomandi þátta eins og sýkinga kunni að stuðla að tilurð sjúkdómsins.
  • Á árinu 2010 var greint frá óvenjulegum fjölda einstaklinga yngri en 18 ára með drómasýki í Finnlandi og Svíþjóð og fjölgun á greindum tilfellum (yngri en 18 ára) sást einnig á Íslandi. Engin önnur lönd í Evrópu hafa greint frá fjölgun einstaklinga með drómasýki.
  • 30-40 milljónir einstaklinga hafa nú verið bólusettir í Evrópu með sama svínainflúensubóluefni (Pandemrix) og notað hefur verið á Íslandi.
  • Í Finnlandi hafa flestir einstaklingar með drómasýki verið bólusettir með Pandemrix en almenn þátttaka í bólusetningu þar í landi var mjög há eða um 70%. Í Svíþjóð hefur fjölgun greindra einstaklinga verið jafn mikil í bólusettum einstaklingum og óbólusettum.
  • Á Íslandi greindust 5 einstaklingar yngri en 18 ára með drómasýki á árinu 2010. Þar af voru tveir óbólusettir og þrír bólusettir.
  • Tengslin á milli svínainflúensubólusetningar og drómasýki eru því mjög óljós og raunar mjög ólíkleg.
  • Sóttvarnalæknir mun taka þátt í alþjóðlegri rannsókn þar sem könnuð verða tengsl bólusetningar gegn svínainflúensu og drómasýki. Niðurstaðu er að vænta síðar á þessu ári.
  • Þar sem að ólíklegt er að bólusetning gegn svínainflúensu eigi nokkurn þátt í tilurð drómasýki þá hvetur sóttvarnalæknir óbólusetta einstaklinga til bólusetningar því afleiðingar svínainflúensunnar geta orðið mjög alvarlegar eins og dæmin sýna hér á landi sem og erlendis.

Sóttvarnalæknir

<< Til baka