18.04.11

Tölur um fjölda starfandi heilbrigðisstarfsmanna

Á vef Landlæknisembættisins hefur verið gefið út uppfært yfirlit yfir fjölda heilbrigðisstarfsmanna. Í yfirlitinu er að finna tölur um fjölda starfandi einstaklinga í ýmsum heilbrigðisstéttum frá árinu 1981 fram til ársins 2010, upplýsingar um fjölda útgefinna starfsleyfa og upplýsingar um fjölda útskrifaðra nema í nokkrum völdum greinum.

Þessum tölum er safnað árlega hjá Landlæknisembættinu og þær sendar til Hagstofu Íslands sem og í alþjóðlega gagnagrunna um heilbrigðistölfræði, s.s. gagnagrunna NOMESCO, OECD, Eurostat og WHO.

Tölur um fjölda starfandi heilbrigðisstarfsmanna eru að mestu fengnar frá viðkomandi fag- og stéttarfélögum. Fjöldi starfandi lækna, tannlækna og dýralækna er hins vegar reiknaður út frá Læknaskrá, Tannlæknaskrá og Dýralæknaskrá Landlæknisembættisins. Þar er gengið út frá þeirri nálgun að þeir séu starfandi sem fengið hafa almennt lækningaleyfi, eru 70 ára og yngri og búsettir á Íslandi í árslok (sjá nánar um aðferðir við að meta fjölda starfandi lækna á Íslandi: Skortur á heimilislæknum, Talnabrunnur, nóv.-des. 2010).

Þá eru tölur um fjölda leyfishafa fengnar úr viðeigandi skrám hjá Landlæknisembættinu, en prófaskrá Hagstofu Íslands útvegar tölur um fjölda útskrifaðra nema.

Hildur Björk Sigbjörnsdóttir
verkefnisstjóri

<< Til baka