30.05.11

Faraldur alvarlegrar E. coli-sýkingar

Síðari hluta maímánaðar bárust fregnir frá Þýskalandi um aukningu sjúkdómstilfella sem lýstu sér með blóðugum niðurgangi og/eða nýrnabilun (Haemolytic Uremic Syndrome - HUS) af völdum saurgerils sem myndar eiturefni og nefnist E. coli af sermisgerð 0104 (STEC).

Í Þýskalandi hafa um 330 manns hafa greinst með sýkinguna, sem greinist frekar í fullorðnum og er algengari í konum. Vitað er um þrjú dauðsföll af völdum hennar. Samtals hafa 15 einstaklingar greinst í öðrum Evrópulöndum og höfðu þeir allir ferðast til Norður-Þýskalands. Enn greinast ný tilfelli, sem bendir til þess að matvæli menguð með bakteríunni séu enn í dreifingu.

Uppruna sýkingarinnar er ákaft leitað og rannsóknir beinast nú aðallega að hráu grænmeti, en faraldsfræðirannsóknir hafa fundið marktæk tengsl sjúkdómsins við neyslu á hráum tómötum, agúrkum og salati.

Faraldur þessi er einn stærsti faraldur sem um getur af völdum STEC og stafar af óvenjulegum stofni saurgerla, E. coli af sermisgerð 0104 (Shiga toxin-producing E. coli, serotype 0104 - STEC 0104). Aldursdreifingin í þessum faraldri er óvenjuleg að því leyti að það er einkum fullorðið fólk sem sýkist, en venjulega greinast sambærilega sýkingar helst í börnum.

Sóttvarnalæknir hvetur þá sem ferðast til Norður-Þýskalands til að forðast neyslu á hráu grænmeti þar til uppruni sýkingarinnar hefur verið fundinn og tekinn úr umferð eða faraldurinn liðinn hjá. Þeir eru einnig hvattir til að leita til læknis ef þeir fá einkenni frá meltingarfærum eftir ferðalag til Norður-Þýskalands.

Lesa nánar um E. coli-sýkingar

<< Til baka