23.01.12

Mataræði landsmanna hefur þokast nær ráðleggingum

Niðurstöður landskönnunar á mataræði landsmanna 2010-2011 voru birtar í dag. Megin niðurstaða könnunarinnar er sú að mataræði Íslendinga hefur þokast nær ráðleggingum um heilsusamlegt mataræði frá árinu 2002.

Má þar einkum nefna að neysla á harðri fitu (þ.e. mettaðri fitu og trans-fitusýrum) og viðbættum sykri hefur heldur minnkað, meira er borðað af grænmeti, ávöxtum og grófu brauði og fleiri taka lýsi. Enn er þó langt í land með að þorri þjóðarinnar fylgi ráðleggingum um a.m.k. 400 grömm af ávöxtum og grænmeti daglega eða daglega neyslu grófra brauða og D-vítamíns/lýsis.

Hvað borða Íslendingar?

Að könnuninni stóðu Embætti landlæknis, Matvælastofnun og Rannsóknastofa í næringarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala háskólasjúkrahús og náði hún til fólks á aldrinum 18-80 ára. Hliðstæð rannsókn fór síðast fram árið 2002.

Niðurstöður könnunarinnar voru kynntar fjölmiðlum á fundi í húsakynnum Embættis landlæknis fyrr í dag en síðdegis verður opinber kynning haldin í Norræna húsinu, sjá nýlega frétt. Kynningin í Norræna húsinu er öllum opinn og ekki þarf að skrá sig.

Í dag kom jafnframt út skýrsla um könnunina, "Hvað borða Íslendingar? Könnun á mataræði Íslendinga 2010-2011. Helstu niðurstöður". Höfundar hennar eru þær Hólmfríður Þorgeirsdóttir, Elva Gísladóttir og Bryndís Elfa Gunnarsdóttir hjá Embætti landlæknis, Jónína Stefánsdóttir hjá Matvælastofnun, Hrund Valgeirsdóttir, Inga Þórsdóttir, Ingibjörg Gunnarsdóttir og Laufey Steingrímsdóttir frá Rannsóknastofu í næringarfræði og Landspítala-háskólasjúkrahús.

Hvað borða Íslendingar? Könnun á mataræði Íslendinga 2010-2011. Helstu niðurstöður. Skýrsla (PDF)

Samantekt niðurstaðna úr könnunum á mataræði 2010-2011 (PDF)

Landskönnun á mataræði Íslendinga 2010-2011. Kynning á fundi með fjölmiðlum 23. janúar 2012. (PDF)

Elva Gísladóttir
Hólmfríður Þorgeirsdóttir

næringarfræðingar

<< Til baka