01.12.11

Alþjóðlegi alnæmisdagurinn 1. desember

Sjá stærri mynd

Rauði borðinn

Það sem af er þessu ári hafa samtals 20 sjúklingar greinst með HIV-sýkingu. Eins og fram hefur komið í fréttum hefur orðið aukning á HIV-sýkingum á undanförnum árum meðal fíkniefnaneytenda sem sprauta sig. Á þessu ári hafa greinst 13 HIV-sýktir fíkniefnaneytendur, en dregið hefur úr greiningu sýkinga í þessum áhættuhópi á síðustu fjórum mánuðum og hefur aðeins einn greinst með HIV-smit á þeim tíma.

Sex gagnkynhneigðir sjúklingar hafa greinst með HIV -sýkingu á árinu. Þrír þeirra eru af erlendu bergi brotnir. Einn sjúklingur, sem einnig er af erlendu bergi brotinn, hefur greinst með HIV -sýkingu sem trúlega má rekja til blóðgjafar með sýktu blóði.

Einn sjúklingur hefur látist á árinu af völdum alnæmis, lokastigs sjúkdómsins.

Í tilkynningu Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins (ESB) í tilefni dagsins kemur fram að marktæk aukning hafi orðið á fjölda HIV-sýktra meðal fíkniefnaneytenda sem sprauta sig í mörgum löndum ESB og EES á þessu ári, einkum í Grikklandi og Rúmeníu.

Stofnunin telur að þessa aukningu megi að hluta til rekja til bættrar vöktunar og rakningar smits. Þá er þess getið að minni fjármunir sem renna til forvarna, til að mynda í Grikklandi og Rúmeníu, kunni að skipta máli þótt erfitt sé að sýna fram á það. Hvatt er til þess að draga úr áhrifum skaðans með bættu aðgengi að hreinum sprautum og nálum. Afar mikilvægt sé að greina ástæður aukningar á HIV-sýkingum með faraldsfræðilegum rannsóknum

Á Íslandi hefur mikil umræða átt sér stað um það hvernig bregðast megi við útbreiðslu HIV-sýkinga meðal fíkniefnaneytenda. Ákveðið hefur verið að styrkja verkefni á vegum Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands og forvarnarverkefni HIV-Íslands og unnið er að frekari úrræðum til að draga úr smitlíkum af völdum HIV.

Sóttvarnalæknir

Sjá meira um HIV og alnæmi:

 

 

<< Til baka