01.03.12

Faraldur kikhósta í Kanada og Bandaríkjunum.

Á undanförnum vikum og mánuðum hafa komið upp faraldrar af kikhósta í nokkrum fylkjum Kanada og Bandaríkjanna, einkum Bresku Kólumbíu (í Kanada), Kaliforníu, Norður-Karólínu og Missouri.

Fjölmörg ung börn hafa verið lögð inn á sjúkrahús og nokkur börn hafa dáið. Unglingar og fullorðnir hafa einnig greinst en sjúkdómurinn er vægari hjá eldri einstaklingum. Margir unglinganna og fullorðinna höfðu verið bólusettir gegn kikhósta sem börn, en ungu börnin voru óbólusett.

Kikhósti er alvarleg öndunarfærasýking hjá börnum á fyrstu mánuðum ævinnar (sjá meðfylgjandi myndband: http://www.youtube.com/watch?v=wuvn-vp5InE) en hjá unglingum og fullorðnum birtist sjúkdómurinn einkum sem langvarandi og þrálátur hósti.

Bólusetning er áhrifarík til að koma í veg fyrir sjúkdóminn hjá ungum börnum en verndar aðeins í um 10 ár. Þess vegna geta unglingar og fullorðnir sýkst af kikhósta og geta smitað ung og óbólusett börn.

Á Íslandi er bólusett gegn kikhósta við 3, 5 og 12 mánaða aldur og endurbólusett við 4 og 14 ára aldur. Þátttaka í bólusetningunni hefur verið með miklum ágætum, eða yfir 95%, en sjúkdómurinn getur skotið upp kollinum hér á landi hjá börnum yngri en 3 mánaða og öðrum óbólusettum.

Sóttvarnalæknir hefur bent á að hægt er að endurbólusetja fullorðna gegn kikhósta með samsettu bóluefni sem einnig inniheldur mótefni gegn stífkrampa og barnaveiki. Með því móti má auka mótstöðu gegn sjúkdómnum í samfélaginu og minnka þannig líkur á að smit berist til ungra barna.

Engin áform eru uppi um að hefja reglubundna bólusetningu gegn sjúkdómnum hjá fullorðnum hér á landi eins og gert hefur verið í Bandaríkjunum.

Kikhósti greindist síðast á Íslandi í ungu barni á árinu 2008, en líklegt að sjúkdómurinn sé vangreindur hér á landi hjá fullorðnum einstaklingum.

Sóttvarnalæknir

 

<< Til baka