23.03.12

Félagsráðgjafi ársins

Sjá stærri mynd

Sigurlaug Hauksdóttir (t.v.) og Guðbjörg Edda Hermannsdóttir, félagsráðgjafar ársins.

Í vikunni var Sigurlaug Hauksdóttir, yfirfélagsráðgjafi á sóttvarnasviði Embættis landlæknis, valin félgsráðgjafi ársins ásamt samstarfskonu sinni.

Viðurkenninguna hlutu þær fyrir frumkvöðlastarf í fræðslu og forvörnum með sérstakri áherslu á verkefnið „Tölum saman - samskipti foreldra og ungs fólks um kynlíf". Félagsráðgjafafélag Íslands hefur veitt þennan titil á ári hverju síðan 2008.

Verkefnið hafa þær Sigurlaug og samstarfskona hennar, Guðbjörg Edda Hermannsdóttir, starfrækt á eigin vegum í heilan áratug í félagi við þriðja aðila. Þær heimsækja skóla og foreldrafélög sem þess óska og halda fræðslufundi um kynlíf og kynhegðun unglinga fyrir foreldra og einnig með unglingunum sjálfum. Skólar um allt land sem hafa nýtt sér þessa fræðslu teljast nú kringum 130.

Sigurlaug Hauksdóttir hefur starfað sem yfirfélagsráðgjafi á sóttvarnasviði frá árinu 2002 og vinnur þar við fræðslu og forvarnir gegn HIV/alnæmi og kynsjúkdómum. Þannig er verksvið hennar á ýmsum sviðum tengt því frumkvöðlastarfi sem hún hefur nú fengið viðurkenningu fyrir.

Embætti landlæknis óskar Sigurlaugu til hamingju með þessa viðurkenningu.

Sóttvarnalæknir
Landlæknir 

<< Til baka