Slys - tölur

Sjá stærri mynd

Tölur um slys byggja á skráningu í Slysaskrá Íslands. Markmið skrárinnar er að samræða skráningu slysa og veita yfirlit yfir fjölda þeirra, orsakir og afleiðingar, þannig að unnt sé að hafa áhrif á þessu sömu þætti. Hlutverk Slysaskrár er ennfremur að skapa möguleika á ítarlegri rannsóknum á slysum.

Slysaskrá Íslands inniheldur staðlaðar upplýsingar um slys með meiðslum og upplýsingar um eignatjón í umferðaróhöppum. Einungis eru skráðar lágmarksupplýsingar um slysið sjálft og hinn slasaða einstakling, svo sem tegund slyss, vettvangur, sveitarfélag, tímasetning, kyn og aldur.

Slysaskrá Íslands er varðveitt hjá Embætti landlæknis sem fer með daglega umsjón hennar en skráin á stoð í lögum um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007. Fjöldi skráningaraðila var í upphafi takmarkaður við fjóra. Þeim fjölgaði hins vegar jafnt og þétt til ársins 2009 og hafa verið átján talsins síðan þá. Nánast allar heilbrigðisstofnanir senda upplýsingar í Slysaskrá auk lögreglunnar, Vinnueftirlitsins og eins tryggingarfélags. Gera má ráð fyrir að gögn Slysaskrár gefi nokkuð heildstæða mynd af umfangi slysa á Íslandi og af tilteknum lágmarksupplýsingum um þau slys. Vegna þess að skráningaraðilum fjölgaði nokkuð til ársins 2009 má gera ráð fyrir að tölur frá og með þeim tíma séu sambærilegastar.

Á þessari síðu má finna tölulegar upplýsingar um slys og slasaða einstaklinga. Þessi tölfræði byggir á þeim gögnum sem skráningaraðilar senda inn í hina miðlægu Slysaskrá. Ákveðnar reglur eru um skráningu sem eiga að draga úr líkum á því að sömu slysin séu skráð oftar en einu sinni. Engu að síður er ekki útilokað að svo kunni að vera í einhverjum tilvikum og ber að líta á þessa tölfræði sem ákveðna nálgun á heildarumfangi slysa á Íslandi.

Lesa nánar um Slysaskrá Íslands.

Síðast uppfært 12.08.2020