Lyfjanotkun - tölur

Sjá stærri mynd

Lyfjagagnagrunni landlæknis var komið á fót 2005. Frá 2013 hefur hann innihaldið nánast fullþekjandi rauntímaupplýsingar fyrir allar afgreiðslur lyfseðilskyldra lyfja utan sjúkrahúsa. Lyfjagagnagrunnur tók miklum breytingum í kjölfar breytinga á lyfjalögum 2012 þar sem læknum var heimilaður aðgangur að þriggja ára lyfjasögu sjúklinga sinna í grunninum og einstaklingum heimilaður aðgangur að eigin lyfjasögu í gegnum heilsuvera.is. Endurgerð lyfjagagnagrunns í samræmi við lagabreytingu var að fullu lokið árið 2016. Gögn í lyfjagagnagrunni koma eftir nokkrum leiðum en einkum eru um að ræða rafrænar sendingar upplýsinga um lyfjaávísanir frá heilbrigðisþjónustu og rafrænar upplýsingar um afgreiðslu lyfja í lyfjabúðum. Lyfjagagnagrunnur gegnir mikilvægu og fjölþættu hlutverki. Hann er undirstaða tölfræði um lyfjanotkun landsmanna sem nýtist stjórnvöldum og almenningi. Auk þess er hann lykilþáttur í eftirliti með lyfjaávísunum og veitir einstaklingum aðgang að eigin lyfjaupplýsingum. Þá er lyfjagagnagrunnur mikilvæg uppspretta landsþekjandi gagna til vísindarannsókna. Lesa nánar um lyfjagagnagrunn.

Starfandi læknar á Íslandi hafa aðgang að lyfjagagnagrunni embættisins og geta þannig séð allar lyfjaávísanir sem og lyfjaafgreiðslur til sjúklinga sinna. Ennfremur hafa einstaklingar aðgang að eigin lyfjasögu í gegnum aðgang að lyfjagagnagrunni í gegnum heilsuveru. Góð yfirsýn læknis yfir lyfjanotkun sjúklings er mikilvægur þáttur í að auka öryggi og gæði í lyfjameðferð sjúklinga og stuðla að auknu hagræði í heilbrigðisþjónustu.

Árið 2015 var gerð prófun á ytra réttmæti lyfjagagnagrunnsins. Samanburður á lyfjaávísunum samkvæmt lyfjagagnagrunni og sölutölum Lyfjastofnunar leiddi í ljós 97-98% samræmi á árunum 2012-2013. Niðurstöður þessa samanburðar á ávísuðu magni og seldu magni lyfja í skilgreindum dagsskömmtum (DDD) teljast mjög ásættanlegar.

Síðast uppfært 04.12.2020