Lyfjanotkun - tölur

Sjá stærri mynd

Lyfjagagnagrunnur Embættis landlæknis hefur verið starfræktur frá árinu 2006 og inniheldur gögn allt frá 2003. Frá upphafi árs 2016 hefur hann innihaldið upplýsingar um allar lyfjaávísanir og útleyst lyf í rauntíma. Ennfremur hefur grunnurinn innihaldið upplýsingar um lyfjanotkun á hjúkrunarheimilum landsins frá árinu 2013.

Í upphafi var lyfjagagnagrunni einkum ætlað það hlutverk að nýtast sem tæki fyrir almennt eftirlit með lyfjaávísunum lækna og til þess að hafa sértækt eftirlit með ávísunum á ávanabindandi lyf. Við rekstur lyfjagagnagrunns hefur síðan komið í ljós að gagnsemi hans er mun víðtækari. Auk þess að nýtast við eftirlit landlæknis hefur hann gefið mikilvæga innsýn í lyfjanotkun Íslendinga og ávísanavenjur lækna og verið mikilvæg uppspretta gagna til vísindarannsókna.

Starfandi læknar á Íslandi hafa aðgang að lyfjagagnagrunni embættisins og geta þannig séð allar lyfjaávísanir sem og lyfjaafgreiðslur til sjúklinga sinna. Ennfremur hafa einstaklingar aðgang að eigin lyfjasögu í gegnum aðgang að lyfjagagnagrunni í gegnum heilsuveru. Góð yfirsýn læknis yfir lyfjanotkun sjúklings er mikilvægur þáttur í að auka öryggi og gæði í lyfjameðferð sjúklinga og stuðla að auknu hagræði í heilbrigðisþjónustu.

Árið 2015 var gerð prófun á ytra réttmæti lyfjagagnagrunnsins. Samanburður á lyfjaávísunum samkvæmt lyfjagagnagrunni og sölutölum Lyfjastofnunar leiddi í ljós 97-98% samræmi á árunum 2012-2013. Niðurstöður þessa samanburðar á ávísuðu magni og seldu magni lyfja í skilgreindum dagsskömmtum (DDD) teljast mjög ásættanlegar.

Síðast uppfært 17.05.2019