Biðlistar - tölur

Embætti landlæknis hefur staðið fyrir innköllun og úrvinnslu á upplýsingum um bið eftir völdum aðgerðum allt frá árinu 1986, með hléum. Frá árinu 2007 hafa biðlistar verið kallaðir inn reglulega þrisvar sinnum á ári. Er þessi gagnasöfnun hluti af lögbundnu eftirlitshlutverki landlæknis, sbr. lög um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007.

Upplýsingar um biðlista eru birtar reglulega ásamt greinargerð á heimasíðu Embættis landlæknis. Birtar eru upplýsingar um fjölda einstaklinga sem skráðir eru á biðlista og hafa beðið lengur en þrjá mánuði sem og upplýsingar um fjölda framkvæmdra aðgerða og áætlaðan biðtíma.

Biðlistaupplýsingar eru gagnlegar fyrir stjórnendur heilbrigðisstofnana og almenning. Þá nýtast þær yfirstjórn heilbrigðismála sem mælikvarði á gæði og skilvirkni í heilbrigðisþjónustunni. Umræður um biðlista geta þó verið misvísandi og það er ýmislegt sem hafa ber í huga við túlkun upplýsinganna:

  • Tölur gefa til kynna fjölda þeirra sem beðið hafa þrjá mánuði eða lengur. Þeir sem beðið hafa skemur eru sagðir vera á vinnulista.
  • Biðlistar geta verið mismunandi eftir árstímum, t.d. vegna sumarleyfa starfsmanna. Við samanburð er því rétt að líta einnig til fjölda á biðlista á sama tíma fyrri ár.
  • Hafa ber í huga að sjúklingar geta þurft að bíða mislengi eftir því á hvaða heilbrigðisstofnun og/eða hjá hvaða lækni þeir eru skráðir.
  • Mikill fjöldi á biðlista jafngildir ekki alltaf lengri bið; líta þarf til fjölda framkvæmdra aðgerða á tímabilinu.
  • Sjúklingar geta sjálfir í samráði við sinn lækni frestað aðgerð en þannig lengist biðtíminn.
  • Mannabreytingar á stofnunum, breytt verklag sem og flutningur verkefna á milli stofnana getur haft áhrif á tölurnar.

Síðast uppfært 24.11.2017