Sjálfsvíg - tölur

Til þess að fá fullan skjá þarf að smella á örina neðst í hægra horni. Einnig er hægt að smella hér til þess að opna mælaborðið á annarri síðu.

 

Túlkun talna

Tölur um sjálfsvíg eru lágar hér á landi miðað við stærstu flokka dánarorsaka og þjóðin fámenn. Litlar breytingar á fjölda valda því óhjákvæmilega nokkrum sveiflum í dánartíðni. Vegna þessa er mikilvægt að túlka tölur einstakra ára af varúð enda getur verið um tilviljanankennda sveiflu að ræða. Til þess að jafna sveiflur milli ára og draga fram langtímaþróun sjálfsvíga getur verið heppilegra að notast við meðaltöl nokkurra ára heldur en tíðni hvers árs.

 

Hvernig eru sjálfsvíg skráð?

Tölur um dánarorsakir byggja á dánarvottorðum einstaklinga sem áttu lögheimili á Íslandi við andlát. Dánarmein eru skráð af dánarvottorðum í dánarmeinaskrá embættis landlæknis og kóðuð samkvæmt nýjustu útgáfu og uppfærslum alþjóðlegrar tölfræðiflokkunar sjúkdóma og skyldra heilbrigðisvandamála (International Classification of Diseases, ICD). Frá árinu 1996 hafa dánarmein verið kóðuð eftir 10. útgáfu flokkunarkerfisins, ICD-10, og nýjustu uppfærslum hverju sinni. Tölfræði um dánarorsakir er birt árlega eftir að skráningu og kóðun vottorða undangengins árs og gæðaprófunum er lokið.

Embætti landlæknis birtir árlega tölur um sjálfsvíg eins og þau eru skráð í dánarmeinaskrá. Þessi samantekt tekur til andláta þar sem undirliggjandi dánarorsök á dánarvottorði er vísvitandi sjálfsskaði (skráð með ICD-10 kóða: X60-X84). Ekki eru talin með andlát vegna atburða þar sem ásetningur er óviss (ICD-10: Y10-Y34). Með undirliggjandi orsök andláts  er vísað í þann sjúkdóm eða áverka sem hóf þá keðju atburða sem leiddu beint til andláts eða þær aðstæður slyss eða ofbeldis sem leiddu til banvænna áverka. Þessi skilgreining er m.a. notuð af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni við tölfræðilegan samanburð á milli landa.

 

Erlendur samanburður

Ýmsar alþjóðlegar stofnanir annast söfnun og framsetningu á tölum um dánarmein. Ísland á aðild að slíku samstarfi og sendir meðal annars árlega gögn í alþjóðlegan gagnagrunn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO Global Mortality Database. Tölfræði úr þessum gagnagrunni má nálgast á aðgengilegan hátt í European Mortality Database  sem birtir árlega dánartíðni ýmissa fyrirfram skilgreindra flokka dánarorsaka í aðildarríkjum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, eftir kyni og aldri. 

 

Fjölmiðlar hafa áhrif

Fjölmiðlar geta haft mikil áhrif á þekkingu og viðhorf almennings með umfjöllun sinni um tiltekin málefni. Sjálfsvíg eru vandmeðfarið umfjöllunarefni þar sem ákveðin framsetning, t.d. upplýsingar um aðstæður og aðferðir til sjálfsvíga, er talin geta haft neikvæð áhrif. Ábyrg og vel unnin umfjöllun um sjálfsvíg og tengd málefni getur aftur á móti nýst vel til að koma á framfæri mikilvægum upplýsingum til almennings varðandi sjálfshjálp, aðgengi að aðstoð og þjónustu og úrræðum fyrir syrgjendur. Muna þarf að hvert sjálfsvíg er harmleikur sem hefur áhrif á nánustu ættingja og vini. Þeir eru mjög viðkvæmir fyrir allri umfjöllun og þurfa stuðning til að takast á við sorg þar sem ótal spurningum er ósvarað.

Embætti landlæknis hefur gefið út leiðbeiningar til fjölmiðla um ábyrga umfjöllun sjálfsvíga.

 

Hvert get ég leitað?

Mikilvægt er að þeir sem glíma við sjálfsvígshugsanir segi einhverjum frá líðan sinni, hvort sem er aðstandanda eða hafi samband við Hjálparsíma Rauða krossins 1717, eða á netspjalli 1717.is, við hjúkrunarfræðing í netspjalli á heilsuvera.is, eða við ráðgjafa í síma Píeta samtakanna s.552-2218. Þessi úrræði eru kynnt nánar í þessu myndbandi en þau eru einstaklingum að kostnaðarlausu og opin allan sólarhringinn.

Síðast uppfært 27.06.2022