Lyfjatengd andlát - tölur

Tölur um dánarorsakir byggja á dánarvottorðum einstaklinga sem áttu lögheimili á Íslandi við andlát. Dánarmein eru skráð af dánarvottorðum í dánarmeinaskrá Embættis landlæknis og kóðuð samkvæmt nýjustu útgáfu og uppfærslum alþjóðlegrar tölfræðiflokkunar sjúkdóma og skyldra heilbrigðisvandamála (International Classification of Diseases, ICD). Frá árinu 1996 hafa dánarmein verið kóðuð eftir 10. útgáfu flokkunarkerfisins, ICD-10, og nýjustu uppfærslum hverju sinni. Tölfræði um dánarorsakir er birt árlega eftir að skráning og kóðun vottorða undangengins árs og gæðaprófunum er lokið.

 

Hvað eru lyfjatengd andlát?

Þjóðir heims hafa ekki sannmælst um eina alþjóðlega tölfræðilega skilgreiningu á lyfjatengdum andlátum. Tölfræðilegur samanburður getur því verið villandi, bæði á milli ólíkra landa en einnig yfir tíma innan einstakra landa. Meðal Norðurlandanna hefur verið talsverð umræða um hvaða dauðsföll skuli talin með í flokki lyfjatengdra andláta og setti Norræna heilbrigðistölfræðiráðið (NOMESKO) á fót vinnuhóp í lok árs 2016 í því skyni að skoða skráningu og tölfræðilegar skilgreiningar lyfjatengdra andláta. Afurð af vinnu hópsins birtist í skýrslunni Drug related deaths in the Nordic countries – Revision of the statistical definition  árið 2017. Þar lagði vinnuhópurinn til þrjár mismunandi skilgreiningar á lyfjatengdum andlátum og tók Embætti landlæknis ákvörðun um að nota þá skilgreiningu sem vinnuhópurinn taldi áskjósanlegasta í birtri tölfræði. Skilgreiningin felur í sér andlát þar sem lyfjaeitrun er undirliggjandi dánarorsök, án tillits til ásetnings. Eina undantekningin er eitrun vegna líkamsárásar sem ekki er innifalin í skilgreiningunni. Þannig er enginn greinarmunur gerður á óhappaeitrunum (ICD-10: X40-X44) eða eitrunum vegna vísvitandi sjálfsskaða (ICD-10: X60-X64). Eitranir með óvissan ásetning (ICD-10: Y10-Y14) eru einnig innifaldar í skilgreiningunni.

Lýsing á þeirri skilgreiningu sem notuð er til að meta fjölda lyfjatengdra andláta:

Samkvæmt dánarmeinaskrá embættis landlæknis er tæplega þriðjungur lyfjatengdra andláta síðustu tíu árin sjálfsvíg (vísvitandi sjálfseitrun). Tölum um sjálfsvíg og lyfjatengd andlát er því ekki hægt að slá saman. Stærstur hluti lyfjatengdra andláta falla undir óhappaeitranir, um 57% síðastliðinn áratug. 

 

Fjöldi lyfjatengdra andláta eftir kyni og aldri

Embætti landlæknis birtir árlega tölur um lyfjatengd andlát eins og þau eru skráð í dánarmeinaskrá.


Tölur um lyfjatengd andlát eru lágar hér á landi miðað við stærstu flokka dánarorsaka og þjóðin fámenn. Litlar breytingar á fjölda valda því óhjákvæmilega nokkrum sveiflum í dánartíðni. Vegna þessa er mikilvægt að túlka tölur einstakra ára af varúð enda getur verið um tilviljanakennda sveiflu að ræða. Til þess að jafna sveiflur milli ára og draga fram langtímaþróun lyfjatengdra andláta getur verið heppilegra að notast við meðaltöl nokkurra ára heldur en tíðni hvers árs.

Síðastliðinn áratug hefur árlegur fjöldi lyfjatengdra andláta verið á bilinu 23-39, að meðaltali 29 á ári eða 8,7 á hverja 100.000 íbúa. Vegna þess hve tölur um andlát vegna lyfjaeitrana eru lágar þurfa miklar sveiflur að verða til þess að hægt sé að staðhæfa að um marktæka breytingu sé að ræða. Ekki er hægt að fullyrða með vissu að breyting hafi orðið á heildardánartíðni lyfjatengdra andláta undanfarinn áratug.

Lyfjatengd andlát eru að jafnaði lítið eitt tíðari meðal karla heldur en kvenna. Á síðustu tíu árum (2011-2020) voru að meðaltali 16 lyfjatengd andlát árlega hjá körlum og 13 hjá konum. Það samsvarar því að 9,6 af hverjum 100.000 karlmönnum hafi látist vegna lyfjaeitrana á þessu tíu ára tímabili og 7,7 af hverjum 100.000 konum. 

Ef litið er á tíðni lyfjatengdra andláta í mismunandi aldurshópum undanfarinn áratug (2011-2020) sést að dreifingin er mismunandi eftir því hvort karlar eða konur eiga í hlut. Meðal karla voru lyfjatengd andlát tíðust í aldurshópnum 30-44 ára eða 18,9 hjá hverjum 100.000 körlum á þeim aldri. Hjá konum hins vegar voru lyfjatengd andlát algengust hjá 60 ára og eldri, 12,9 á hverjar 100.000 konur á þeim aldri og hjá 45-59 ára, 11,3 á hverjar 100.000 konur í þeim aldurshópi.

 

Erlendur samanburður

Ýmsar alþjóðlegar stofnanir annast söfnun og framsetningu á tölum um dánarmein. Ísland á aðild að slíku samstarfi og sendir meðal annars árlega gögn í alþjóðlegan gagnagrunn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO Global Mortality Database. Séu lyfjatengd andlát á Norðurlöndunum afmörkuð með þeim hætti sem að framan er lýst (ICD-10 kóðar: X40-X44, X60-X64, Y10-Y14) má sjá að á árunum 2008-2015 voru þau tíðust í Svíþjóð, 8,7 á hverja 100.00 íbúa. Var tíðnin næsthæst í Finnlandi (8,2/100.000) og á Íslandi (8,1/100.000) á fyrrnefndu tímabili en fæst lyfjatengd andlát voru hins vegar í Danmörku, 5,8 á hverja 100.000 íbúa.

Síðast uppfært 20.05.2021