Dánarorsakir - tölur

Fæstar þjóðir hafa nægilega nákvæmar og yfirgripsmiklar upplýsingar um sjúkdóma og sóttarfar og því eru tölur um dauðsföll meginuppspretta upplýsinga við skipulag og mat á heilbrigðisþjónustu. Dánartölur eru aðgengilegustu upplýsingarnar þegar rannsakað er hlutfallslegt mikilvægi algengustu heilbrigðisvandamála bæði á lands- og heimsmælikvarða. Dánartölur verður þó að túlka með gát þegar um samanburð í tíma eða á milli landa er að ræða, m.a. vegna mismunandi greiningaraðferða og mismunandi aldurssamsetningar.

Tölur um dánartíðni og dánarmein má finna á vef Hagstofunnar og einnig er hægt að finna upplýsingar um sögulegt yfirlit yfir skráningu dánarorsaka og notkun flokkunarkerfa hér á vefnum.

Kveðið er á um ritun dánarvottorða í lögum um dánarvottorð, krufningar o.fl. nr. 61/1998 og í reglugerð nr. 248/2001. Dánartölur eru byggðar á dánarvottorðum þar sem tilgreindir eru sjúkdómar, áverkar og kringumstæður sem valda dauða. Greining dánarorsaka er í höndum einstakra lækna og má gera ráð fyrir nokkru ósamræmi vegna mismunandi túlkunar þeirra. Til þess að draga sem mest úr ósamræmi sem þetta kann að valda fer einn aðili, læknir, yfir öll dánarvottorð hér á landi og leiðréttir þau ef með þarf og sér til þess að aflað sé nánari upplýsinga um vafatilvik.

Í kjölfar nýrra laga um dánarvottorð og krufningar sem samþykkt voru árið 1998 fór fram endurskoðun á eyðublöðum og skráningu dánarvottorða í kjölfar tilmæla landlæknis um gildistöku nýrrar útgáfu af alþjóðlegu flokkunarkerfi sjúkdóma, ICD-10. Ein af meginbreytingunum var sú að horfið var frá því að kóða og skrá einungis aðaldánarorsök eins og verið hafði en þess í stað skal kóða og skrá allar dánarorsakir. Landlæknir gefur út eyðublöð fyrir dánarvottorð.

Tölur um dánartíðni og dánarmein má einnig finna á vef Hagstofunnar.

Síðast uppfært 24.05.2018