Kannanir á mataræði

Sjá stærri mynd

Síðasta landskönnun á mataræði fullorðinna landsmanna fór fram seinni hluta árs 2010 og fyrri hluta árs 2011. Að könnuninni stóðu Embætti landlæknis (áður Lýðheilsustöð), Matvælastofnun og Rannsóknastofa í næringarfræði. Alls tóku 1312 manns á aldrinum 18-80 ára þátt í könnuninni, svarhlutfall var 68,6%.

Tveimur aðferðum var beitt samhliða, annars vegar endurtekinni sólarhringsupprifjun neyslu og hins vegar voru spurningar lagðar fyrir um tíðni neyslu einstakra fæðuflokka og fæðutegunda.

Undirbúningur könnunarinnar var í höndum Lýðheilsustöðvar þar sem einnig fékkst húsnæði og aðstaða en Rannsóknastofa í næringarfræði og Lýðheilsustöð (Embætti landlæknis eftir 1. maí 2011) sáu sameiginlega um framkvæmd og úrvinnslu hennar. Skýrsla um könnunina, Hvað borða Íslendingar?, kom út í janúar 2012.

Næsta landskönnun á mataræði þar á undan fór fram árið 2002 og var svipaðri aðferð beitt og 2010-2011. Þar áður var gerð landskönnun á mataræði árið 1990.

Kannanir á mataræði barna hafa í seinni tíð verið framkvæmdar af Rannsóknastofu í næringarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala háskólasjúkrahús.

 

Hvernig nýtast niðurstöður landskannana?

Niðurstöður landskannana á mataræði nýtast á margan hátt, m.a. varðandi áherslur í heilsueflingu og forvörnum á sviði næringar og matvælaöryggis. Þá byggir fræðsla og ráðgjöf á þessu sviði til stjórnvalda, fyrirtækja og almennings á þeim. Niðurstöðurnar nýtast ennfremur við að meta hvort ástæða sé til að grípa til aðgerða vegna of lítillar eða of mikillar neyslu einstakra næringarefna eða annarra efna. 

Síðast uppfært 19.09.2016