Kannanir á mataræði

Sjá stærri mynd

Landskannanir á mataræði eru forsenda þess að hægt sé að fylgjast með þróun mataræðis, neyslu næringarefna, aukefna og aðskotaefna meðal landsmanna, í ólíkum aldurs-, búsetu-, og þjóðfélagshópum. Upplýsingar sem fást úr landskönnun á mataræði eru mikilvægar til að vinna að heilsueflingu og forvörnum gegn langvinnum sjúkdómum, t.d. sykursýki tegund 2.

Mataræði er einn af veigamestu áhrifaþáttum heilsu en samkvæmt tölum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um sjúkdómabyrði fyrir Ísland (Global Burden of Disease) þá er mataræði einn megin áhættuþáttur sjúkdóma hér á landi.

Niðurstöður landskannana nýtast m.a. við gerð markmiða og áherslna í heilsueflingu og forvörnum á sviði næringar. Það sama á við um áhættumat og áhættukynningu vegna matvælaöryggis og neytendaverndar. Þá má nefna fræðslu og ráðgjöf til stjórnvalda, fyrirtækja og gerð ráðlegginga um mataræði fyrir almenning.

Nú stendur yfir landskönnun á mataræði fullorðinna, 18-80 ára. Könnunin hófst haustið 2019 og stefnt að því að henni ljúki fyrir lok árs 2020. Könnunin er unnin í samstarfi við Rannsóknastofu í næringarfræði (RÍN) við Háskóla Íslands sem sér um framkvæmdina. Tveimur aðferðum err beitt samhliða, annars vegar endurtekinni sólarhringsupprifjun neyslu og hins vegar eru spurningar lagðar fyrir um tíðni neyslu einstakra fæðuflokka og fæðutegunda.

Síðasta landskönnun á mataræði fullorðinna landsmanna fór fram 2010-2011 og var sömu rannsóknaraðferð beitt þá og nú. Skýrsla um könnunina, Hvað borða Íslendingar?, kom út í janúar 2012. Næsta landskönnun á mataræði þar á undan fór fram árið 2002 og þar áður var gerð landskönnun á mataræði árið 1990.
Kannanir á mataræði barna hafa verið framkvæmdar af Rannsóknastofu í næringarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala háskólasjúkrahús.

Hvernig nýtast niðurstöður landskannana?

Niðurstöður landskannana á mataræði nýtast á margan hátt, m.a. varðandi áherslur í heilsueflingu og forvörnum á sviði næringar og matvælaöryggis. Þá byggir fræðsla og ráðgjöf á þessu sviði til stjórnvalda, fyrirtækja og almennings á þeim. Niðurstöðurnar nýtast ennfremur við að meta hvort ástæða sé til að grípa til aðgerða vegna of lítillar eða of mikillar neyslu einstakra næringarefna eða annarra efna í matvælum.

Síðast uppfært 17.11.2020