Heilsa og líðan norrænna barna

Sjá stærri mynd

Árið 2011 var norræna rannsóknin Heilbrigði og líðan barna og unglinga á Norðurlöndum (The Nordic Study of Children‘s Health and Wellbeing) lögð fyrir á Íslandi. Íslenski hluti rannsóknarinnar var samvinnuverkefni Lýðheilsustöðvar og Landlæknisembættisins og var fram haldið hjá Embætti landlæknis eftir sameiningu stofnananna.

Rannsókninni hefur verið stýrt af Norræna lýðheilsuháskólanum í Gautaborg og hefur hún verið framkvæmd þrisvar sinnum, árin 2011 og 1996 og í nokkuð annarri mynd árið 1984. Ísland hefur tekið þátt í henni frá upphafi.

Rannsóknin byggir á spurningalista sem foreldrar barna á aldrinum 2–17 ára svara fyrir hönd barna sinna. Íslenski hluti rannsóknarinnar sem lögð var fyrir árið 2011 náði til 3.200 barna á aldrinum 217 ára. Börnin voru valin með slembiúrtaki úr þjóðskrá og var svarhlutfall tæplega 50%.

Tilgangur rannsóknarinnar er m.a. að kanna almennt heilsufar barna með tilliti til sjúkdóma, óþæginda og slysa eða óhappa, að kanna hvort barnið hafi farið til læknis og hvaða þátta foreldrar horfa til þegar heilbrigðisþjónustu er leitað. Í rannsókninni er enn fremur spurt um athafnir og þroska barna, um tómstundaiðkun þeirra og vináttusambönd. Þá eru í spurningalistanum mælingar á félags- og efnahagslegri stöðu foreldra og ánægju þeirra með samskipti við heilbrigðisþjónustuna.

Landlækni ber lögum samkvæmt að stuðla að rannsóknum á starfssviðum embættisins. Ein leið til þess er að veita aðgang að gögnum úr þeim rannsóknum sem embættið hefur staðið fyrir.

Rannsakendur og háskólanemar í framhaldsnámi eru hvattir til þess að kynna sér rannsóknina Heilbrigði og líðan barna og unglinga á Norðurlöndum með tilliti til greinarskrifa eða lokaverkefna.

Gott aðgengi er að íslenska hluta rannsóknarinnar frá árinu 2011 en aðgangur að gögnum er veittur í samræmi við reglur embættisins og viðeigandi lög og reglur. Ef áhugi er á að vinna úr gögnum frá fleiri löndum þarf að sækja um slíkt til norræna rannsóknarhópsins en rétt er að hafa hugfast að umsókn um samnorræn gögn getur tekið tíma.

Síðast uppfært 01.11.2016