Heilsa og líðan Íslendinga

Sjá stærri mynd

Rannsóknin Heilsa og líðan Íslendinga hefur fest sig í sessi sem mikilvæg uppspretta upplýsinga um heilsufar fullorðinna Íslendinga. Meginmarkmið rannsóknarinnar er að leggja mat á heilsu, líðan og lífsgæði landsmanna auk þess að mæla með reglubundnum hætti helstu áhrifaþætti heilbrigðis. Niðurstöður rannsóknarinnar hafa nýst Embætti landlæknis, stjórnvöldum, háskólasamfélaginu og öðrum þeim sem koma að mikilvægum ákörðunum er varða heilsu og velferð landsmanna.

Árið 2017 - fjórða framkvæmd

Embætti landlæknis stýrði fjórðu umferð gagnaöflunar rannsóknarinnar Heilsa og líðan Íslendinga í október 2017. Rannsóknin var þá lögð fyrir ríflega 6.000 einstaklinga sem samþykktu áframhaldandi þátttöku árið 2012 en að auki var tekið nýtt 4.000 manna tilviljunarúrtak íslenskra ríkisborgara, 18 ára og eldri, sem búsettir voru á Íslandi. Fram til þessa hafði spurningalistinn eingöngu verið lagður fyrir á pappírsformi en með fyrirlögninni 2017 varð sú breyting á að helmingi þátttakenda gafst kostur á að svara með rafrænum hætti en hinn helmingurinn svaraði á pappír.

Árið 2012 - þriðja framkvæmd

Embætti landlæknis, ásamt samstarfsaðilum, framkvæmdi rannsóknina í þriðja sinn í október 2012. Þá voru spurningalistar sendir til u.þ.b. 3.700 einstaklinga sem samþykkt höfðu áframhaldandi þátttöku í rannsókninni þremur árum áður. Sami spurningalisti var einnig sendur til nýs 6.500 manna tilviljunarúrtaks íslenskra ríkisborgara á aldrinum 18–79 ára með skráða búsetu á Íslandi.

Rannsókninni var stýrt af Embætti landlæknis í samstarfi við Vinnueftirlit ríkisins, Krabbameinsfélagið, Landspítala, Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Háskólann á Akureyri.

Líkt og fyrri ár er rannsókninni meðal annars ætlað að nýtast í opinberri stefnumótun í heilbrigðismálum sem og til eflingar rannsóknarstarfi á þessu sviði. Mörg rannsóknarverkefni hafa verið unnin úr gögnum Heilsu og líðan Íslendinga, en lista yfir þessi verkefni má finna á vef Embættis landlæknis.

Í framkvæmdaskýrslu er fjallað um helstu þætti er lúta að framkvæmd rannsóknarinnar árið 2012. Skýrslunni er ætlað að uppfylla annars vegar þarfir þeirra sem vinna með gögn úr rannsókninni og hins vegar þeirra sem leita upplýsinga um stöðu þeirra málefna sem rannsóknin fjallar um.

Í viðauka eru birtar valdar niðurstöður um heilsu og líðan Íslendinga með áherslu á samanburð milli áranna 2007 og 2012. Niðurstöðurnar eru fyrst og fremst lýsandi og eru alls ekki tæmandi, enda er hver og ein breyta aðeins greind eftir kyni, aldri og ári rannsóknar.

Árið 2009 - önnur framkvæmd

Af þeim sem svöruðu könnuninni árið 2007 samþykktu flestir að taka þátt í framhaldsrannsókn að 4-6 árum liðnum með það að markmiði að kanna breytingar á heilsu og líðan Íslendinga.

Í ljósi breyttra aðstæðna í íslensku samfélagi, í kjölfar bankahrunsins haustið 2008, var hins vegar ákveðið að fara af stað með framhaldsrannsóknina síðla árs 2009, þ.e. fyrr en áætlað var. Í endanlegu úrtaki voru 5.294 Íslendingar sem höfðu samþykkt þátttöku í framhaldsrannsókn með undirskrift sinni í könnuninni árið 2007 (svarhlutfall 77,3%).

Meginmarkmið framhaldsrannsóknarinnar var að mæla breytingar á lífsháttum, félagslegri stöðu, heilsu og líðan fólks ári fyrir og ári eftir upphaf efnahagsþrenginganna í október 2008. Rannsóknin árið 2009 byggir á spurningalista frá fyrri könnun árið 2007 með nokkrum breytingum.

Lýðheilsustöð stóð að framhaldsrannsókninni í samstarfi við Landlæknisembættið, Vinnueftirlit ríkisins, Krabbameinsfélagið, Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Akureyri og Landspítala háskólasjúkrahús. Lýðheilsustöð sameinaðist Embætti landlæknis 1. maí 2011.

Gögn úr þessum tveimur tengdu rannsóknum hafa verið notuð í fjölmörg rannsóknarverkefni og þau hafa nýst í lokaverkefni nemenda í ýmsum háskóladeildum. Ritrýndum fræðigreinum sem byggja á gögnum rannsóknarinnar fjölgar smátt og smátt. Nokkrar greinar eru í vinnslu á hverjum tíma og þar sem meðgöngutími slíkra rannsókna er oft nokkuð langur má búast við umtalsverðri fjölgun ritrýndra greina á næstu misserum.

Árið 2007 - fyrsta framkvæmd

Seinni hluta árs 2007 stóð Lýðheilsustöð fyrir fyrstu fyrirlögninni á viðamikilli póstkönnun á heilsu, líðan og velferð Íslendinga á aldrinum 18-79 ára. Spurningalistar voru sendir út til 9.807 manna tilviljunarúrtaks og var svarhlutfall 60,3%.

Könnunin var unnin í samstarfi við Landlæknisembættið, Vinnueftirlitið, Krabbameinsfélag Íslands og sérfræðinga frá Kennaraháskóla Íslands, Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Háskólanum á Akureyri. Rannsókninni var ætlað að vera grunnur að reglubundnum mælingum á heilsu, líðan og lífsgæðum fólks á Íslandi.

Markmið rannsóknarinnar var að afla upplýsinga um heilsu, líðan, lífsgæði og sjúkdóma fólks á Íslandi, svo og um helstu áhrifaþætti heilbrigðis, þ.e. lífshætti, aðstæður og lífsskilyrði. Stuðst var við viðurkennda staðlaða mælikvarða á heilsu og heilsusamlegum lífsháttum auk sérsniðinna mælinga. Áhersla var lögð á að mæla þætti sem töluleg gögn íslenska heilbrigðiskerfisins og Hagstofu Íslands ná ekki yfir. Gögn rannsóknarinnar hafa verið nýtt bæði af háskólasamfélaginu og opinberum aðilum.

Rannsóknarverkefni byggð á Heilsa og líða Íslendinga.

Síðast uppfært 23.06.2021