Aðgangur að gögnum

Fjölmörg gagnasöfn eru haldin hjá Embætti landlæknis, ýmist á ábyrgð landlæknis eða sóttvarnalæknis. Er það í samræmi við ákvæði í lögum um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007 og sóttvarnalög nr. 19/1997.

Um er að ræða:

  • Heilbrigðisskrár, sem eru gagnagrunnar með gögnum um starfsemi heilbrigðisþjónustunnar, sjúkdóma, slys, fæðingar og dánarmein.
  • Gagnasöfn sem orðið hafa til vegna spurningakannana sem embættið hefur staðið fyrir eða tekið þátt í.
  • Skrár yfir tilteknar löggiltar heilbrigðisstéttir og skrá yfir rekstraraðila í heilbrigðisþjónustu.

Á sérstakri síðu á vef embættisins er að finna yfirlit yfir þessi gagnasöfn.

Samkvæmt lögum um landlækni og lýðheilsu er tilgangur þess að halda heilbrigðisskrár m.a. sá að nýta gögnin til vísindarannsókna. Innan Embættis landlæknis er starfandi rannsóknagagnanefnd sem fer yfir allar umsóknir um gögn. Nefndin hittist að öllu jöfnu vikulega.

Til þess að sækja um gögn skal fylla út umsóknareyðublað og senda ásamt þeim fylgiskjölum sem við eiga og tilgreind eru á umsóknareyðublaðinu. Umsókn skal send í tölvupósti á mottaka@landlaeknir.is eða í bréfapósti til embættisins. Ef um er að ræða nemaverkefni skal leiðbeinandi, sem ábyrgðarmaður rannsóknar, undirrita umsóknina.

Embættið áskilur sér rétt til gjaldtöku vegna gagnavinnslu, í samræmi við Reglugerð um gjaldtöku embættis landlæknis fyrir úttektir og staðfestingar á að faglegar lágmarkskröfur séu uppfylltar og úrvinnslu og afhendingu upplýsinga úr heilbrigðisskrám.

Nánari upplýsingar veitir Guðrún Kristín Guðfinnsdóttir

Síðast uppfært 02.12.2022