Fæðingaskrá (Birth Register)

Ábyrgðaraðili: Landlæknir

Vinnsluaðili: Landspítali (LSH), kvennasvið.

Tilgangur: Að fylgjast með ýmsum mælikvörðum sem snerta fæðingar, s.s. tíðni burðarmálsdauða og keisaraskurða. Að safna saman tölfræði og bera saman við önnur lönd en skráin nýtist einnig við rannsóknir. Fæðingaská tekur þátt í norrænu samstarfi.

Innihald: Tiltekin gögn um allar fæðingar á Íslandi frá og með árinu 1972.

Tímabil: Rafræn skrá frá og með 1981.

Uppruni gagna: Gögn frá öllum fæðingastöðum á landinu eru skráð í Fæðingaskrá. Stærstur hluti gagna er nú fluttur úr skráningarkerfum heilbrigðisstofnana í Fæðingaskrá með rafrænum sendingum. Lítill hluti er hins vegar skráður beint í Fæðingaskrá af kvennasviði Landspítala.

Skráningaratriði: Ýmis atriði er varða meðgöngu, fæðingu, vandamál í fæðingu, inngrip og fætt barn. Skráð er m.a. fæðingarstaður og stund, meðgöngulengd, fyrri fæðingar, afbrigði fæðingar, meðferð í fæðingu, þyngd og lengd barna og sjúkdómsgreiningar.

Sambærileg eða skyld gagnasöfn: Sambærilegar skrár eru haldnar á Norðurlöndum.

Úrvinnsla og birting:

Fæðingaskráin hefur gefið út ársskýrslu síðan 1995. Tiltekin tölfræði úr fæðingaskrá er birt á vef Embættis landlæknis. Tölfræði úr fæðingaskrá er send í alþjóðagagnagrunna.

Saga: Skrá um fæðingar og þætti sem þeim tengjast hefur verið haldin á kvennadeild Landspítalans frá árinu 1972 samkvæmt ákvörðun landlæknis. Fram að þeim tíma hafði landlæknir safnað upplýsingum um allar fæðingar í landinu frá héraðslæknum einu sinni á ári. Á árunum 1970-1971 tók Ísland þátt í könnun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar á skráningu fæðinga. Í framhaldi af þessu starfi ákvað landlæknir í samvinnu við kvennadeild Landspítalans að taka í notkun nýja fæðingatilkynningu á öllu landinu í ársbyrjun 1972. Það var gert til þess að safna ítarlegri upplýsingum en áður og samræma upplýsingaöflun við nágrannalöndin. Á sama tíma var tilhögun fæðingatilkynninga breytt með þeim hætti að í stað þess að héraðslæknar sendu landlækni árlegar upplýsingar um fæðingar þá var eintak af fæðingaskýrslu sent á kvennadeild Landspítala og átti það að gerast viku eftir fæðinguna. Síðan þá hefur skráning og úrvinnsla gagna verið á vegum deildarinnar og úrvinnsla m.a. send landlækni, sem hefur birt gögn um fæðingar á vefsíðu sinni. Fæðingaskráning á Íslandi hefur verið færð með rafrænum hætti frá 1981. Frá árinu 1995 hefur fæðingaskráin gefið út vandaða ársskýrslu.

Síðast uppfært 06.12.2016

<< Til baka