Spilastokkur að gjöf til nemenda í tóbakslausum bekkjum

31.03.16
Spil. Tóbakslaus bekkur

Allir nemendur í sjöunda, áttunda og níunda bekk grunnskóla sem taka þátt í verkefninu Tóbakslaus bekkur fá sendan spilastokk að gjöf frá Embætti landlæknis.

Í vetur taka 220 bekkir víðsvegar um landið þátt í verkefninu þannig að gjöfin verður send til nær 4300 grunnskólanemenda. Gjöfin mun berast á næstu dögum.

Nýlega voru einnig dregnir út tveir bekkir sem fá sendan aukavinning og er það annar útdráttur vinninga á skólaárinu. Að þessu sinni fá nemendur vinningsbekkjanna og kennarar þeirra húfur frá 66° Norður.

Húfur frá 66° Norður Eftirtaldir bekkir duttu í lukkupottinn:

9. SJ í Austurbæjarskóla
7. FS í Grunnskólanum í Sandgerði

Þátttakendur eru minntir á lokaskil á verkefnum, en þeim á að skila í síðasta lagi mánudaginn 27. apríl næstkomandi.

Alls tíu bekkir sem senda inn lokaverkefni vinna til verðlauna. Þeir bekkir sem velja að senda inn lokaverkefni geta unnið fé til að ráðstafa eins og bekkurinn sjálfur kýs að gera. Upphæðin nemur 5.000 krónum fyrir hvern skráðan nemanda í bekknum.

Eingöngu er tekið við lokaverkefnum á tölvutæku formi. Æskilegt er að myndbrot séu ekki lengri en 10 mínútur. Verkefnin geta verið með ýmsu móti, t.d. veggspjöld, auglýsingar, stuttmyndir eða fræðsluefni um tóbaksvarnir.

Áréttað er að það er ekki skilyrði fyrir þátttöku í verkefninu Tóbakslaus bekkur að skila inn lokaverkefni. Eftir miðjan maí verða úrslitin kynnt.

Nánari upplýsingar eru á vefsvæði keppninnar: www.landlaeknir.is/tobakslausbekkur

Hægt er að skoða lokaverkefni verðlaunahafa síðasta skólaárs í frétt um úrslitin 15. maí 2015.

Viðar Jensson
verkefnisstjóri


<< Til baka


Quick Navigation