Viðbúnaður gegn vá

Sóttvarnalæknir ber ábyrgð á viðbúnaði gegn vá af völdum:

  • smitsjúkdóma/sjúkdómsvalda 
  • eiturefna 
  • geislavirkra efna og 
  • óvæntra atburða sem geta haft alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar meðal þjóða heims.

Það er hlutverk sóttvarnalæknis að útbúa viðbragðsáætlanir, framkvæma áhættumat, gera faraldsfræðirannsóknir til að kanna uppruna faraldra og hópsýkinga og segja fyrir um aðgerðir til að hindra útbreiðslu þeirra.

Ef brýn nauðsyn krefur vegna farsóttar getur sóttvarnalæknir lagt til við ráðherra að grípa skuli til opinberra sóttvarnaráðstafana með ónæmisaðgerðum, einangrun smitaðra, sótthreinsun, afkvíun byggðarlaga eða landsins alls, lokun skóla eða samkomubanns. Sóttvarnalæknir getur beitt slíkum vörnum til bráðabirgða án þess að leita heimildar fyrir fram ef hann telur að hvers konar töf sé hættuleg, en hann skal gera ráðherra jafnskjótt kunnar ráðstafanir sínar.

Samstarf
Sóttvarnalæknir er í samvinnu við umdæmis- og svæðislækna sóttvarna, starfsmenn og stofnanir heilbrigðisþjónustunnar, Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga, Umhverfisstofnun, Matvælastofnun og Geislavarnir ríkisins eftir því sem við á, varðandi hugsanlega smithættu eða hættu vegna eiturefna eða geislavirkra efna.

Samstarfsnefnd um sóttvarnir (SSUS) er skipuð af ráðherra. Hlutverk nefndarinnar er að afla gagna og hafa yfirumsjón með nauðsynlegum aðgerðum til að meta og uppræta smithættu eða hættu sem stafar af dýrum, matvælum, starfsemi, vatni, skolplögnum, loftræstingu eða öðru í umhverfinu sem getur dreift smitnæmum sjúkdómsvöldum, eiturefnum eða geislavirkum efnum sem ógna heilsu manna. Í nefndinni situr sóttvarnalæknir og fulltrúar frá Matvælastofnun, Geislavörnum ríkisins og Umhverfisstofnun.

Heimsfaraldur
Sóttvarnalæknir er tengiliður Íslands við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina og gerir tillögur til ráðherra varðandi sóttvarnaráðstafanir vegna farsótta. Sóttvarnalæknir vann náið með almannavarnadeild ríkislögreglustjóra við gerð Landsáætlunar, heimsfaraldur inflúensu (sjá undir „Viðbragðsáætlanir“ í hægri dálki). Þann 25. maí 2020 kom út þriðja og núgildandi útgáfa viðbragðsáætlunar almannavarna (Heimsfaraldur – Landsáætlun, 2020). Landsáætlun nær yfir heimsfaraldra af hvaða toga sem er.

Í heimsfaraldri vinna sóttvarnalæknir og ríkislögreglustjóri þétt saman samkvæmt viðbúnaðaráætluninni til að draga úr alvarlegum afleiðingum farsóttar á heilsufar og samfélag.

Sóttvarnalæknir er í nánu samstarfi við Matvælastofnun, Umhverfisstofnun, Lyfjastofnun og Heilbrigðiseftirlit sveitafélaga og útbýr viðbúnaðaráætlanir til að bregðast við matarsýkingum og súnum. Viðbúnaður vegna hugsanlegs sýklahernaðar er einnig á ábyrgð sóttvarnalæknis.

Þá var gefin út sóttvarnaáætlun fyrir hafnir og skip árið 2017 í samvinnu við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Hafnasambandið, Tollstjóra, Samgöngustofu og aðra aðila.

Eldgosið í Geldinganesi 2021, Eyjafjallajökli 2010, Holuhrauni 2014 og díoxínmengun á Vestfjörðum 2011 eru dæmi um atburði, þar sem sóttvarnalæknir framkvæmdi áhættumat og sagði fyrir um viðbrögð til að draga úr skaðlegum áhrifum mengunar á heilsu manna.

Alþjóðasóttvarnir
Sóttvarnalæknir tekur þátt í alþjóðasóttvörnum, hann er í nánu samstarfi við Sóttvarnastofnun Evrópu (European Centre for Disease Control - ECDC). Hann situr einnig fyrir Íslands hönd í heilbrigðisöryggisnefnd ESB (Health Security Committee - HSC). 
Öryggisnefndin er framkvæmdastjórn ESB til ráðgjafar um lagasetningu varðandi vöktun og viðbrögð og er ábyrg fyrir sóttvarnaráðstöfunum ESB. 

Tengiliður við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO)
Sóttvarnalæknir er lögum samkvæmt tengiliður Íslands við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO).

Tilkynna skal sóttvarnalækni alla atburði sem ógnað geta alþjóðasamfélaginu hvort sem þeir eiga rætur að rekja til Íslands eða til annarra landa.

Sóttvarnalæknir er með vakt allan ársins hring (neyðarsími 510-1933) til að sinna hlutverki sóttvarnalæknis sem tengiliður við WHO og til að bregðast við óvæntri vá innanlands eða erlendis frá.

Síðast uppfært 20.12.2021