Sýklalyfjanotkun

 Sýklalyfjanotkun er áhrifamesti þátturinn í vali og dreifingu sýklalyfjaónæmis, þótt sambandið geti verið flókið. Röng og/eða of mikil notkun sýklalyfja eykur hættu á að sýklalyfjaónæmar bakteríur komi fram og breiðist út.

Forsenda markvissra aðgerða gegn óskynsamlegri sýklalyfjanotkun er að hafa góðar og áreiðanlegar upplýsingar um notkun sýklalyfja og þróun ónæmis gegn þeim.

Á Íslandi er hvatt til þess að sýklalyf séu notuð með ábyrgum hætti. Áhersla er lögð á sýkingavarnir á heilbrigðisstofnunum og fylgst er með tíðni sýkinga sem tengjast heilbrigðisþjónustunni. Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu hefur gefið út ráðleggingar um meðferð algengra sýkinga utan spítala sem byggja á sænsku strama leiðbeiningunum.

Í sóttvarnalögum segir að sóttvarnalæknir skuli halda smitsjúkdómaskrá með upplýsingum um útbreiðslu smitsjúkdóma, ónæmisaðgerðir og notkun manna á sýklalyfjum sem valdið geta ónæmi sýkla gegn sýklalyfjum. Þær upplýsingar skulu vera ópersónugreinanlegar. Smitsjúkdómaskrá þessi er til stuðnings sóttvarnastarfi og faraldsfræðirannsóknum á Íslandi. Upplýsingar um notkun sýklalyfja og sýklalyfjaónæmi geta gagnast læknum sem ávísa þessum lyfjum.

Í apríl 2017 skilaði starfshópur heilbrigðisráðherra greinargerð um aðgerðir gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Starfshópurinn lagði fram 10 tillögur sem hann taldi nauðsynlegar í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi. Í febrúar 2019 lýstu ráðherrar heilbrigðis-, sjávarútvegs- og landbúnaðarmála því yfir að þessar tillögur mörkuðu opinbera stefnu stjórnvalda í þessum málaflokki. Í maí 2019 sendi ríkisstjórn Íslands svo frá sér yfirlýsingu þess efnis að Ísland ætlaði sér að vera í fararbroddi í baráttunni gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis og myndi sú barátta byggja á tillögum starfshópsins frá 2017.

Auk þess hófst á árinu 2016 samstarf Norðurlandanna (One Health) sem miðar að því draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería auk samstarfs innan Evrópusambandsins og á alþjóðavísu innan Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).

Eftirlit með sýklalyfjanotkun hjá mönnum og dýrum og bætt notkun lyfjanna gegnir lykilhlutverki í baráttunni gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Enn fremur er mikilvægt að fylgjast með tilvist ónæmra baktería hjá mönnum og dýrum, í matvælum og í umhverfi og hafa tiltækar aðgerðir verið hafnar til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu.

Síðast uppfært 09.11.2021