Sýklalyfjaónæmi og sýklalyfjanotkun

Sjá stærri mynd

Sýklalyfjaónæmi
Uppgötvun sýklalyfja í upphafi 20. aldarinnar er eitt mesta afrek vísindalegrar læknisfræði. Með uppgötvun Alexanders Fleming á penicillíni árið 1928 og myndun og framleiðslu annarra sýklalyfja næstu áratugina þar á eftir kviknaði von um að hægt væri að lækna og jafnvel útrýma mörgum af hættulegustu sjúkdómum heims.

Hinsvegar leið ekki langur tími frá því að notkun sýklalyfja hófst þar til stofnar ónæmra baktería komu fram og nú er svo komið að sumar tegundir baktería eru ónæmar fyrir nánast öllum gerðum sýklalyfja.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur skilgreint sýklalyfjaónæmi sem eina af mestu heilbrigðisógnum heimsins. Aukið ónæmi fyrir sýklalyfjum veldur vandamálum við meðferð sýkinga og hefur þar af leiðandi slæmar afleiðingar fyrir heilsu manna og veldur auknum kostnaði við heilbrigðisþjónustu.

Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (European Centre for Disease Prevention and Control - ECDC) áætlar að í Evrópu einni komi upp um það bil 700 þúsund sýkingar á ári hverju af völdum ónæmra sýkla sem leiða til um 30 þúsund dauðsfalla. Með auknum ferðalögum og viðskiptum með matvæli og dýraafurðir heimshorna á milli opnast leiðir fyrir sýklalyfjaónæmar bakteríur til að dreifa sér. Sýklalyfjaónæmi er því alþjóðlegt vandmál.

Á sýklafræðideild Landspítala er fylgst náið með þróun sýklalyfjaónæmis, og á heimasíðu deildarinnar eru birtar árlegar yfirlitstöflur um sýklalyfjanæmi valinna sýkla allt frá árinu 1998.

Sýklalyfjanotkun
Sýklalyfjanotkun er áhrifamesti þátturinn í vali og dreifingu sýklalyfjaónæmis, þótt sambandið geti verið flókið. Röng og/eða of mikil notkun sýklalyfja eykur hættu á að sýklalyfjaónæmar bakteríur komi fram og breiðist út.

Forsenda markvissra aðgerða gegn óskynsamlegri sýklalyfjanotkun er að hafa góðar og áreiðanlegar upplýsingar um notkun sýklalyfja og þróun ónæmis gegn þeim.

Á Íslandi er hvatt til þess að sýklalyf séu notuð með ábyrgum hætti. Áhersla er lögð á sýkingavarnir á heilbrigðisstofnunum og fylgst er með tíðni sýkinga sem tengjast heilbrigðisþjónustunni.

Í sóttvarnalögum segir að sóttvarnalæknir skuli halda smitsjúkdómaskrá með upplýsingum um útbreiðslu smitsjúkdóma, ónæmisaðgerðir og notkun manna á sýklalyfjum sem valdið geta ónæmi sýkla gegn sýklalyfjum. Þær upplýsingar skulu vera ópersónugreinanlegar. Smitsjúkdómaskrá þessi er til stuðnings sóttvarnastarfi og faraldsfræðirannsóknum á Íslandi. Upplýsingar um notkun sýklalyfja og sýklalyfjaónæmi geta gagnast læknum sem ávísa þessum lyfjum.

Í apríl 2017 skilaði starfshópur heilbrigðisráðherra greinargerð um aðgerðir gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Starfshópurinn lagði fram 10 tillögur sem hann taldi nauðsynlegar í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi. Í febrúar 2019 lýstu ráðherrar heilbrigðis-, sjávarútvegs- og landbúnaðarmála því yfir að þessar tillögur mörkuðu opinbera stefnu stjórnvalda í þessum málaflokki. Í maí 2019 sendi ríkisstjórn Íslands svo frá sér yfirlýsingu þess efnis að Ísland ætlaði sér að vera í fararbroddi í baráttunni gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis og myndi sú barátta byggja á tillögum starfshópsins frá 2017.

Auk þess hófst á árinu 2016 samstarf Norðurlandanna (OneHealth) sem miðar að því draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería auk samstarfs innan Evrópusambandsins og á alþjóðavísu innan Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).

Eftirlit með sýklalyfjanotkun hjá mönnum og dýrum og bætt notkun lyfjanna gegnir lykilhlutverki í baráttunni gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Ennfremur er mikilvægt að fylgjast með tilvist ónæmra baktería hjá mönnum og dýrum, í matvælum og í umhverfi og hafa tiltækar aðgerðir verið hafnar til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu.

 

 

Síðast uppfært 10.01.2020