Handhreinsun heilbrigðisstarfsfólks

Sjá stærri mynd

Það er margsannað með vönduðum rannsóknum að handhreinsun, þ.e. handþvottur og/eða sótthreinsun handa með efni sem inniheldur alkólhól er árangursríkasta aðferðin til að rjúfa smitleiðir og fyrirbyggja sýkingar.

Afar mikilvægt er að allir starfsmenn heilbrigðisþjónustu hafi þetta í huga og þvoi hendur sínar vandlega eða noti handspritt fyrir og eftir snertingu við einstaklinga sem njóta þjónustunnar eða eftir að hendur þeirra hafa mengast með einhverjum hætti.

Sóttvarnalæknir og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hvetur heilbrigðisstarfsfólk til að:

Þvo hendur með vatni og sápu þegar:

 • þær eru sjáanlega óhreinar eða mengaðar með próteinefni
 • þær eru sjáanlega mengaðar blóði eða öðrum líkamsvessum
 • hafa orðið fyrir bakteríumengun
 • eftir salernisferðir.

Við eftirtaldar vinnuaðstæður er æskilegt að nota sótthreinsunarefni með alkóhóli til handhreinsunar, þegar hendur eru ekki sjáanlega óhreinar (sé svo skal þvo þær með vatni og sápu).

 • Fyrir og eftir beina snertingu við sjúklinga
 • Eftir að farið er úr hönskum
 • Fyrir meðhöndlun áhalda sem ætluð eru til inngripa við meðferð sjúklinga (óháð því hvort hanskar eru notaðir eða ekki)
 • Eftir snertingu við líkamsvessa, slímhúðir, rofna húð eða sáraumbúðir
 • Þegar snerta þarf hrein líkamssvæði eftir að hafa snert menguð svæði við umönnun sjúklinga
 • Eftir snertingu við hluti í umhverfi sjúklings 
 • Þvo hendur með vatni og sápu og/eða hreinsa þær með sótthreinsiefni með alkóhóli áður en lyf eru meðhöndluð og áður en matur er tilreiddur.

Atriði sem hafa skal í huga við handhreinsunina:

 • Áður en hafist er handa skal fjarlægja skartgripi af höndum, s.s. hringa, armbönd, arbandsúr.
 • Vanda vel til þurrkunar.
 • Gæta þess að endurmenga ekki hendur eftir að handþvotti er lokið.
 • Ef sár er á húð handanna þarf að hylja það með umbúðum, sem endurnýja þarf eftir þörfum t.d. þegar þær blotna.  E.t.v. þarf að nota hanska við störfin.

Alkóhóllausnir til sótthreinsunar / handspritt:

 • ethanol í 60-80% styrkleika
 • isóprópanól
 • n-pópanól

 

 

Síðast uppfært 28.07.2021