Tilkynningarskyldir sjúkdómar

Sóttvarnalæknir ber ábyrgð á vöktun farsótta og heilsuvá af völdum eiturefna, geisla og annarra óvæntra atburða, lögum samkvæmt skal hann halda smitsjúkdómaskrá sem tekur til sjúkdóma, sjúkdómsvalda og atburða.

Þessi vöktun fer stöðugt fram með það að markmiði að greina uppruna og eðli farsótta, svo hægt sé að grípa til bráðra aðgerða t.d. með afkvíun, einangrun, meðferð smitaðra og rakningu smits milli einstaklinga eða rannsókn á uppruna farsótta í matvælum, umhverfi eða öðrum efnum eða búnaði.

Tilkynningarskyldir eru þeir sjúkdómar, sjúkdómsvaldar og atburðir sem náð geta mikilli útbreiðslu í samfélaginu og jafnframt ógnað almannaheill, sjá lista hér fyrir neðan.

Alvarlegir smitsjúkdómar, sem ólíklegt er að nái mikilli útbreiðslu, en nauðsynlegt er að þekkja til svo smit berist ekki milli manna, eru einnig tilkynningarskyldir. Sjúkdómar, sem geta af augljósum ástæðum ekki náð að breiðast hér á landi (t.d. malaría) eru einnig tilkynningarskyldir.

Tilkynningar um einstaklinga með tilkynningarskylda sjúkdóma berast frá rannsóknarstofum og meðhöndlandi læknum. Læknum, sem greina tilkynningarskyldan sjúkdóm, ber að senda tilkynningu á þar til gerðum eyðublöðum með faraldsfræðiupplýsingum um líklegan smitunarstað, tímsetningu smits og hugsanleg tengsl við önnur tilfelli. Þessar upplýsingar eru mikilvægar til að fylgjast með faraldsfræði sjúkdómanna, greina atsóttir eða hópsýkingar og grípa til viðeigandi aðgerða.

Leiðbeiningar til lækna um skráningu tilkynningarskyldra sjúkdóma má nálgast hér.

Síðast uppfært 07.10.2022