Skráningarskyldir sjúkdómar

Skráningarskyldir sjúkdómar eru sjúkdómar sem geta breiðst út í samfélaginu en ekki hefur hagnýta þýðingu að þekkja til einstaklinganna. Sóttvarnalækni eru því sendar ópersónugreinanlegar upplýsingar um þessa sjúkdóma frá meðhöndlandi læknum og heilsugæslustöðvum.

Með vöktun á skráningarskyldum sjúkdómum er hægt að fylgjast með útbreiðslu og þróun þeirra í samfélaginu og eftir þörfum upplýsa almenning og heilbrigðisstarfsmenn og gefa ráðleggingar. Til greina kemur að grípa til aðgerða við óvænta aukningu á fjölda tilfella.

Dæmi um skráningarskylda sjúkdóma eru vöktun einkenna frá öndunarfærum og helstu öndunarfæraveira. Einkum er mikilvægt að afla upplýsinga um sýkingar af völdum Respiratory Syncytial veirunnar (RS veiru) sem getur valdið alvarlegum faröldrum í ungabörnum að vetrarlagi og koma upplýsingum og ráðgjöf til foreldra og heilbrigðisstarfsmanna þegar tilfellum fjölgar. Annað dæmi í þessum flokki er vöktun einkenna frá meltingarfærum ásamt sýkingum af völdum nóróveira og rótaveira. Þessar sýkingar geta valdið faröldrum einkum yfir vetrarmánuðina og því mikilvægt að fylgjast með útbreiðslu þeirra með upplýsingum til almennings og aðgerðum við mögulegar atsóttir eða hópsýkingar.

Síðast uppfært 30.05.2022