Apabóla (monkeypox)

Hvað er apabóla?
Apabóla (monkeypox) er veirusjúkdómur landlægur í Mið- og Vestur Afríku þar sem veiran smitast helst frá dýrum (nagdýrum) í fólk. Veiran greindist fyrst í öpum árið 1958 og fékk þannig nafn sitt en fyrsta tilfelli í fólki greindist árið 1970. Veiran er orthopox veira og er náskyld bólusóttarveiru (smallpox). Sjúkdómurinn hefur hingað til verið sjaldgæfur utan Afríku. Undanfarnar vikur hafa hins vegar greinst tilfelli apabólu í mörgum öðrum löndum, innan og utan Evrópu. Dreifing þessara smita hefur verið manna á milli, sem er óvenjulegra en ekki óþekkt. Allir geta smitast en sérstaklega hefur nú undanfarið borið á smitum milli karla sem stunda kynlíf með körlum.

Viðbrögð
Sjúkdómurinn er tilkynningarskyldur til sóttvarnalæknis sbr. reglugerð nr. 677/2022. Nokkur tilfelli hafa greinst hérlendis og hafa þeir einstaklingar haft ferðasögu til Evrópu þar sem smitin áttu sér stað. Almenningur og heilbrigðisstarfsmenn eru beðnir að vera vakandi fyrir einkennum sjúkdómsins til að tryggja hraða og örugga greiningu. Einstaklingar með einkenni og grun um apabólu ættu að hafa samband við  heilbrigðisþjónustu án tafar til meðferðar og vegna smitrakningar. Með viðeigandi ráðstöfunum getum við komið í veg fyrir útbreiðslu sjúkdómsins hérlendis og að hann berist til viðkvæmra hópa.

Smitleiðir
Apabóla er ekki bráðsmitandi. Smitleið eru aðallega snertismit. Smitefni í vessa í útbrotum getur borist við náið samneyti til annarra gegnum rofna húð og slímhúð. Veiran getur einnig lifað lengi á þurru yfirborði (vikur, mánuði) og þannig borist með fatnaði, rúmfötum eða handklæðum frá sýktum einstakling. Dropasmit getur einnig borist frá öndunarvegi þess sýkta (munnvatn, hósti, hnerri) við náin samskipti. Ekki er vitað til þess að veiran hangi í loftingu og smitist þannig með úðasmiti (aerosol).

Einkenni
Frá smiti þar til einkenna verður vart líða venjulega 1–2 vikur en getur verið allt að 3 vikur. Dæmigert er að einkenni séu flensulík í byrjun (hiti, þreyta, vöðvaverkir, höfuðverkur, bakverkur) en 2–3 dögum síðar koma fram útbrot sem oft fylgir kláði og óþægindi. Einnig geta fylgt aumir og stækkaðir, bólgnir eitlar (t.d. í nára eða á hálsi). Útbrotin eru fyrst flöt en síðan myndast bólur og loks blöðrur sem eru vökvafylltar. Útbrotin geta verið fá og staðbundin eða útbreidd og þá einnig á höndum og fótum. Í núverandi faraldri hefur borið á útbrotum kringum kynfæri, jafnvel á undan flensueinkennum. Blöðrurnar þorna að lokum og mynda sár með hrúðri. Þegar blöðrurnar þorna og útbrotin gróa þá er einstaklingurinn ekki lengur smitandi. Ferlið getur tekið allt upp í 4 vikur. Útbrotin geta líkst hlaupabólu eða sárasótt. Alvarleg veikindi eru sjaldgæf (<10%) og oftast gengur sjúkdómurinn yfir af sjálfu sér án meðferðar.

 

Greining
Greining er gerð með sýnatöku frá vökva úr blöðru eða frá sári. Sýni er sent í PCR rannsókn á rannsóknarstofu. Sá sem tekur sýni skal nota veiruhelda grímu og einnota hanska að lágmarki og helst hlífðarslopp og andlitsskjöld eða hlífðargleraugu. Sjá nánari leiðbeiningar um sýnatökur og rannsóknir frá sýkla- og veirufræðideild Landspítala. Smitrakning er gerð til að finna þá sem útsettir hafa verið fyrir smiti og eru þeim gefnar sérstakar leiðbeiningar. Þeir teljast útsettir sem hafa verið í nánum samskiptum við smitaðan einstakling með einkenni eða útbrot.

Viðkvæmir hópar
Þungaðar konur, ung börn, aldraðir og ónæmisbældir einstaklingar geta verið í aukinni áhættu fyrir alvarlegum veikindum af völdum apabólu. 

Meðferð
Einangrun og smitgát

Veikindin eru venjulega væg og meðferð því fyrst og fremst stuðningsmeðferð. Hinn sýkti þarf að vera í einangrun þangað til útbrot hafa gróið en það getur tekið allt að 4 vikur en 2–3 vikur er algengast. Verið er að skoða möguleg opinber úrræði fyrir einangrun hérlendis fyrir þá sem hafa ekki slíka aðstöðu.

Í einangrun skal:

 • Halda sig í eigin herbergi eða íbúð. Nota sér baðherbergi, ef hægt er, ef í húsnæði með öðrum.
 • Nota eigin matarílát og áhöld og þrífa eftir sig. Sjá að neðan um sótthreinsun og þrif.
 • Ekki deila fatnaði, handklæðum eða rúmfötum. Sjá að neðan um sótthreinsun og þrif.
 • Halda fjarlægð frá öðrum og þ.m.t. forðast faðmlög, kossa, kynlíf.
 • Sinna handhreinsun og nota andlitsgrímu ef aðrir eru nálægt.
 • Forðast umgengni við viðkvæma hópa.
 • Forðast nána umgengni við dýr því huganlega getur smit borist frá fólki í dýr, sjá leiðbeiningar um meðferð dýra.
 • Halda fjarlægð við aðra og hylja útbrot ef farið er út af heimilinu (t.d. í göngutúra).

Þeir sem hafa verið í nánd við smitaðan einstakling og teljast því útsettir þurfa að halda sig sem mest til hlés í 3 vikur (smitgát).

Í smitgát skal:

 • Vera vakandi fyrir einkennum apabólu þ.m.t. útbrotum. Það getur tekið allt að 3 vikur fyrir einkenni að koma fram.
 • Gæta vel að persónulegum sóttvörnum s.s. að þvo og/eða spritta hendur oft og passa vel allt hreinlæti.
 • Halda fjarlægð frá öðrum eins og hægt er, þ.m.t. ekki stunda kynlíf.
 • Ekki umgangast fleiri en nauðsyn krefur.
 • Ekki deila matarílátum, áhöldum, fatnaði, rúmfötumi, handklæðum o.þ.h. með öðrum.
 • Forðast nána umgengni við dýr eins og hægt er, sjá leiðbeiningar um meðferð dýra.
 • Fara í einangrun ef einkenni koma fram og hafa samband við heilsugæslu/heilbrigðisþjónustu.

Lyf

Meðferð er fyrst og fremst stuðningsmeðferð. Gæta þess vel að drekka nóg af vökva og hægt er að nota lyf eins og parasetamól við verkjum eða hita. Engin veirulyf eru á markaði hér með skráða virkni gegn apabólu en Tecovirimat er veirulyf nýlega skráð til notkunar gegn apabólu í Evrópu og kemur til greina að nota það, sérstaklega hjá viðkvæmum einstaklingum. Lyfinu er einungis ávísað af læknum.

Bóluefni

Í Evrópu er ekkert skráð bóluefni til gegn apabólu en bóluefnið Imvanex er skráð til notkunar við bólusótt fyrir fullorðna og talið er að það veiti einnig vernd gegn apabólu. Bóluefnið er skráð til notkunar gegn apabólu í Bandaríkjunum. Unnið er að því að fá bóluefnið hingað til lands og til greina kemur að bjóða þeim bólusetningu sem verða útsettir fyrir apabólu, sérstaklega einstaklingum með undirliggjandi ónæmisbælingu og heilbrigðisstarfsmönnum. Bóluefnið getur einnig veitt vernd ef gefið fyrstu dagana eftir útsetningu. Fyrri bólusetning gegn bólusótt kemur hugsanlega í veg fyrir alvarleg veikindi en hætt var að bólusetja gegn bólusett hér á landi á árið 1978.

Sótthreinsun og þrif
Apabóluveiran þolir vel þurrk og getur lifað lengi á hrúðurskorpum frá útbrotum sýktra, s.s. á rúmfötum og handklæðum og í umhverfinu. Veiran er hins vegar viðkvæm fyrir algengum sótthreinsunarefnum t.d. klórblöndum, handspritti, persýruefni og hún drepst einnig við hefðbundinn þvott í þvottavél við 60°C hita.

Við hreinsun húsnæðis þar sem einstaklingur með apabólu hefur dvalist þarf sá sem þrífur að vera með veirugrímu (FFP2), einnota hanska og í síðerma hlífðarsloppi ef hann sjálfur hefur ekki sýkst af apabólu. Gæta þarf að því að þyrla ekki upp smitefni t.d. með því að hrista óhreint lín heldur á að taka það saman og setja beint í þvottavél. Ef einangrun fer fram í fjölbýlishúsi þar sem er sameiginlegt þvottahús má setja upprúllaðan rúmfatnað inn í hreint lak og setja allt saman í þvottavélina og þvo á 60°C. Engin hætta er á að þvottavélin mengist af veirunni og geti þannig mengað annan þvott sem síðan er þveginn í henni.

Við þrif á að nota hreint sápuvatn og leggja sérstaka áherslu á þrif á algengum snertiflötum og á salernum. Sótthreinsa síðan yfirborðsfleti eftir þrif með yfirborðsvirku sótthreinsunarefni. Mælt er með að notaðar séu einnota tuskur sem hent er að lokinni notkun. Gluggatjöld, mjúk húsgögn og gólfteppi er hægt að hreinsa með heitri gufu.

Umbúðir af sýktum sárum eða grisjur/plástrar með vessa úr útbrotum þarf að meðhöndla sem sóttmengað sorp. Það þýðir að nota skal einnota hanska þegar umbúðir eru fjarlægðar, setja þær svo beint í plastpoka og binda fyrir. Pokinn, ásamt hönskum, er síðan sett í öruggt safnílát sem hægt er að loka (t.d. kassi með loki). Loks eru hendur þvegnar og sprittaðar á eftir. Það sama gildir um notaðar bréfþurrkur og annað sambærilegt einnota efni sem mengað er af líkamsvessum. Geyma þarf safnílátið á köldum stað t.d. úti á svölum. Að lokinni einangrun getur viðkomandi aðili farið með kassann í Terra- Efnaeyðingu eða hringt í s: 535-2500 og óskað eftir að kassinn verði sóttur og honum eytt.

Forvarnir
Til að minnka líkur á smiti og útbreiðslu smita skaltu:

 • Forðast kynlíf með mörgum ókunnugum einstaklingum.
 • Fara í einangrun ef þú færð einkenni sem bent geta til apabólu og hafa samband við heilsugæsluna símleiðis.
 • Fylgja leiðbeiningum um smitgát ef þú hefur verið í nánd við einstakling með einkenni eða útbrot sem síðan greinist með apabólu.

Síðast uppfært 20.06.2022