Zíkaveirusýking, áunnin eða meðfædd

Zíkaveiran uppgötvaðist fyrst í Mið-Afríku á fimmta áratug síðustu aldar. Sýking af völdum veirunnar var talin sjaldgæf og bundin við Afríku og Asíu. Veirurnar smitast með moskítóflugum og valda oftast litlum sem engum einkennum. Einkennin lýsa sér með hita, útbrotum, liðverkjum og tárubólgu. Þau vara frá nokkrum dögum til viku og leiða sjaldan til sjúkrahúsvistar. En vorið 2015 varð vart við mikla útbreiðslu zíkaveiru í Brasilíu og samtímis sást aukning á fósturskaða sem leiddi til vaxtarskerðingar heilans (microencephaly) og Guillain-Barré-Syndrome (GBS).

Rannsóknir í kjölfarið sýndu tengsl zíkaveirusýkingar á fyrsta og öðrum þriðjungi meðgöngu við meðfæddar vanskapanir í miðtaugakerfi og höfuðsmæð hjá fóstrum og nýfæddum börnum. Minna er vitað um zíkaveirusýkingar á síðasta þriðjungi meðgöngunnar og þar til meiri þekking hefur fengist er rétt að líta á zíkaveirusýkingu sem ógn alla meðgönguna. Tengsl við zíkaveirusýkingar við GBS hafa samtímis orðið stöðugt sterkari og nú talið víst að GBS geti komið í kjölfar zíkaveirusýkingar.

Ekki hvatt til ferðabanns
Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hvetur ekki til almenns ferðabanns til landa þar sem zíkaveiran breiðist út en ráðleggur öllum að forðast moskítóbit allan sólarhringinn, einkum að morgni og síðla dags til kvölds. Zíkaveiran getur smitast við kynmök og því eru sérstakar leiðbeiningar fyrir ferðamenn frá löndum þar sem veiran er í útbreiðslu. Einnig eru sérstakar ráðleggingar eru fyrir barnshafandi konur og þá sem hyggja á barnseign. Auk þess er blóðgjöfum bent á að fylgja reglum Blóðbankans eftir heimkomu frá löndum þar sem zíkaveiran og aðrar hitabeltisveirur smita menn.

Sjá nánar:

Zíkaveirusýking, áunnin eða meðfædd er tilkynningarskyldur sjúkdómur til sóttvarnalæknis, en til þeirra teljast sjúkdómar sem ógnað geta almannaheill.

Þegar grunur vaknar um slíka sýkingu eða hún er staðfest ber læknum, forstöðumönnum rannsóknastofa, sjúkradeilda og annarra heilbrigðisstofnana að senda sóttvarnalækni upplýsingar án tafar og skv. nánari fyrirmælum sótt­varna­læknis.