Ebóla

Ebóla er veirusýking sem veldur alvarlegum veikindum, sem leiða til dauða í um 60% tilfella. Veiran greindist fyrst 1976 og hefur leitt til sýkingahrina í Mið- og Vestur-Afríku. Veiran veldur sjúkdómi í mönnum og öpum, ekki er fyllilega vitað um uppruna hennar en talið er að ávaxtaleðurblökur séu einkennalausir berar veirunnar.

Einkenni ebólu
Byrjunareinkenni ebólu líkjast einkennum inflúensu og malaríu; sótthiti, vöðvaverkir, þreyta, höfuðverkur, verkir í hálsi en geta síðan þróast í ógleði, uppköst, niðurgang, magaverki, útbrot með blæðingum frá húð, slímhimnum, augum, nefi, meltingarvegi og þvagrás og endað í fjöllíffærabilun.

Meðgöngutími
Meðgöngutími þ.e. tími frá smiti til veikinda getur verið allt frá 2–21 dag en flestir veikjast eftir 4–10 daga. Á þessum tíma er viðkomandi einkennalaus og er ekki smitandi.

Smitleiðir
Smit verður við snertingu við líkamsvessa eins og blóð, svita, munnvatn og þvag. Einnig getur smit orðið við óvarin kynmök og við neyslu á hráu og illa elduðum villtum dýrum eða svokölluðu „bush meat". Smitið er ekki loftborið, þ.e. berst ekki með lofti eða andardrætti. Sýktur einstaklingur verður fyrst smitandi þegar hann verður sýnilega veikur, þ.e. fær einkenni sjúkdómsins. Í upphafi veikinda, fyrstu þrjá daga eftir að einkenni koma í ljós, er talið að hinn sýkti sé ekki mjög smitandi.

Greining
Við grun um ebólusýkingu hjá sjúklingi á Íslandi er sýni sent á hááhætturannsóknastofuna (Biosafety level 4) í Stokkhólmi. Sýni til greiningar á ebólu eru einungis tekin í samráði við smitsjúkdómalækna.

Meðferð
Ekki eru til samþykkt bóluefni eða lyf við sjúkdómnum. Meðferðin miðast við almenna stuðningsmeðferð.

 

 

Tilkynningarskylda
Ebólusýking er tilkynningarskyldur sjúkdómur. Tilkynningarskyldir sjúkdómar eru þeir sem náð geta mikilli útbreiðslu í samfélaginu og jafnframt ógnað almannaheill. Læknum ber að tilkynna sóttvarnalækni um einstaklinga sem greinast með ebólu með persónuauðkennum en einnig berast tilkynningar til sóttvarnalæknis frá rannsóknarstofum sem staðfesta sjúkdómsgreininguna. Tilgangur tilkynningar um smitsjúkdóm er að hindra útbreiðslu smits með markvissum aðgerðum t.d. með einangrun, meðferð smitaðra og rakningu smits milli einstaklinga. Til þess að fullnægja þessum skilyrðum verða upplýsingar um hugsanlegan uppruna smits, smitunartíma og einkenni að fylgja tilkynningum. Þannig má tengja smitaða einstaklinga með faraldsfræðilegum hætti, meta áhrif smitsins og grípa til viðbragða.

Síðast uppfært 26.06.2019