Skarlatssótt

Skarlatssótt er sjúkdómur sem orsakast af keðjukokkabakteríunni Streptococcus pyogenes. Bakterían er í daglegu tali oftast kölluð einfaldlega streptókokkar eða grúppu A streptókokkar (GAS). Algengasta birtingarform slíkra sýkinga er hálsbólga. Streptókokkar smitast með dropasmiti t.d. við hósta eða hnerra og einnig við nána umgengni við smitaða (dropa- og snertismit).

Skarlatssótt er algengust hjá börnum og unglingum undir 18 ára aldri og fylgir stundum áðurnefndri hálsbólgu.

Meðgöngutími sjúkdómsins þ.e.a.s. sá tími sem líður frá því að einstaklingur smitast þar til hann fer að fá einkenni er oft 2–5 dagar. Það geta liðið nokkrar klukkustundir til 1–2 dagar frá því veikindi byrja þar til útbrotin koma.

Einkenni
Helstu einkenni eru eymsli í hálsi (hálsbólga), útbrot, hiti, slappleiki, höfuðverkur og stundum eyrnaverkur og uppköst.

Útbrot tengd skarlatssótt einkennast oft af talsverðum roða í andliti, oft með fölleitari húð kringum munninn og útbrotum kringum kynfæri, á bringu, hnakka og í nára. Útbrotin eru oft rauðleitir upphleyptir dílar á bringu og maga sem eru örlítið hrjúf viðkomu eins og fínn sandpappír. Síðar geta útbrotin breiðst út um allan líkamann og orðið að stærri útbrotum. Tungan verður gjarnan mjög rauð og einkennandi útbrot á tungu eru svokölluð „jarðaberjatunga“ Það er algengt að húðin flagni inn í lófum og undir iljum 1-2 vikum eftir að sjúkdómur hefst.

Greining
Greining byggist oft á einkennum en sjúkdómurinn getur líkst tilteknum veirusýkingum s.s. adenoveirusýkingum og því æskilegt að staðfesta greiningu hjá a.m.k. einum fjölskyldumeðlim ef margir eru með svipuð einkenni. Oftast er það gert með því að taka hálsstrok í hraðpróf hjá lækni og/eða á heilbrigðisstofnun. Stundum er tekin ræktun úr hálsi með hálsstroki.

Meðferð
Mikilvægt er að meðhöndla skarlatssótt alltaf með sýklalyfjum (oftast penisillíni) . GAS geta valdið alvarlegum sýkingum og því skal hafa samband strax við lækni ef ástand sjúklings versnar, þótt meðferð sé hafin. Mikilvægt er að taka sýklalyfin samkvæmt fyrirmælum læknis, bæði hvað varðar skammt og tímalengd meðferðar.

Skarlatssótt er skráningaskyldur sjúkdómur.

Síðast uppfært 30.01.2023