Lömunarveiki (mænusótt, Polio)

Lömunarveiki, (mænusótt, Polio)
Mænusótt eða lömunarveiki er smitsjúkdómur af völdum veiru sem leggst getur á taugakerfi líkamans og valdið lömun sem leitt getur til dauða. Þeir sem eru í mestri hættu á að veikjast af sjúkdómnum eru nýburar, ung börn og óbólusettir einstaklingar. Hættan á að lamast af völdum sjúkdómsins eykst með hækkuðum aldri.

Faraldsfræði
Frá því að byrjað var að bólusetja gegn sjúkdómnum árið 1955 hefur náðst mikill árangur og hefur nánast tekist að útrýma sjúkdómnum úr heiminum. Samt sem áður ógnar mænusótt enn ungum börnum í fátækari löndum þar sem aðgengi að bóluefni er takmarkað.

Smitleiðir og meðgöngutími
Mænusóttarveiran er mjög smitandi og getur borist í menn með úðasmiti þ.e. með úða frá öndunarfærum (t.d. með hnerra) en einnig með saurmengun í drykkjarvatni og mat. Veiran getur verið til staðar í margar vikur í hægðum þeirra sem eru smitaðir. Til að verjast smiti er hreinlæti mikilvægt og er þar góður handþvottur mikilvægastur.

Einkenni sjúkdómsins
Langflestir eða um 90-95% af þeim sem veikjast fá væg flensulík einkenni sem geta lýst sér sem almennur slappleiki, hiti, minnkuð matarlyst, ógleði, uppköst, særindi í hálsi, hægðatregða og magaverkir. Alvarlegri einkenni eru verkir og minnkaður kraftur í stoðkerfi líkamans, hnakkastífleiki, vöðvarýrnun, hæsi, erfiðleikar við öndun og kyngingu. Í alvarlegustu tilfellunum verður vöðvalömun, lömun á þvagblöðru og einkenni eins og óróleiki, ósjálfrátt slef og þaninn kviður.

Greining
Auk læknisskoðunar er hægt að greina mænusóttarveiruna með því að mæla mótefni gegn veirunni í blóði og í heila-og mænuvökva. Einnig er hægt að greina veiruna í saur- eða þvagsýni og í stroki frá hálsi.

Meðferð
Engin meðferð eða lyf eru til sem lækna sjúkdóminn. Almennt beinist meðferð að því að draga úr einkennum.

Forvarnir
Bólusetning er áhrifarík til að koma í veg fyrir sjúkdóminn hjá ungum börnum. Mikilvægt er að byrja að bólusetja ung börn því sjúkdómurinn er hættulegastur yngstu börnunum. Hér á landi eru börn bólusett við 3, 5 og 12 mánaða aldur og endurbólusett við 14 ára aldur. Bóluefnið verndar ekki lengur en í 10 ár og því er möguleiki á að smitast síðar á ævinni. Mælt er með að fullorðnir láti bólusetja sig gegn mænusótt á 10 ára fresti ef þeir ferðast til landa þar sem hætta er á smiti.

Tölfræðilegar upplýsingar um Mænusótt

 

Tilkynningarskylda
Tilkynningarskyldir sjúkdómar eru þeir sjúkdómar sem náð geta mikilli útbreiðslu í samfélaginu og jafnframt ógnað almannaheill. Læknum ber að tilkynna sóttvarnalækni um einstaklinga sem veikjast af mænusótt með persónuauðkennum hins smitaða en einnig berast tilkynningar til sóttvarnalæknis frá rannsóknarstofum sem staðfesta sjúkdómsgreininguna. Tilgangur tilkynningar um smitsjúkdóm er að hindra útbreiðslu smits með markvissum aðgerðum t.d. með einangrun, meðferð smitaðra og rakningu smits milli einstaklinga. Til þess að fullnægja þessum skilyrðum verða upplýsingar um líklegan smitunarstað, smitunartíma og einkenni að fylgja tilkynningum. Þannig má tengja smitaða einstaklinga með faraldsfræðilegum hætti, meta áhrif smitsins og grípa til viðbragða.


Sjá nánar: 

Síðast uppfært 06.01.2020