Hundaæði

Hundaæði er banvænn sjúkdómur sem orsakast af veirum sem sennilega eiga uppruna sinn í leðurblökum en geta sýkt mörg önnur spendýr sem geta borið hann til manna, s.s. refi, hunda og ketti. Veiran finnst í líkamsvessum og vefjum smitaðra dýra og dæmi eru til um smit við bit, klór, eða þegar sýkt dýr sleikja sár eða slímhúðir s.s. í augum eða munni. Sjúkdóminn er ekki að finna á Íslandi og fleiri eyríkjum en hann fyrirfinnst í öllum heimsálfum. Ef einstaklingur smitast af hundaæði getur meðgöngutími verið allt frá 4 dögum upp í einhver ár þótt yfirleitt komi einkenni fram innan 3 mánaða. Fyrsta einkenni sjúkdómsins í mönnum er gjarnan dofatilfinning á svæðinu þar sem sárið var ef um bit var að ræða. Í framhaldinu geta komið fram margvísleg einkenni en tregða til að kyngja er dæmigerð og verður til þess að viðkomandi vill ekki drekka vatn (vatnsfælni) og slefar mikið (froðufellir). Máttminnkun eða lömun, hegðunarbreytingar og hár hiti eru algeng einkenni, að lokum öndunarstopp og dauði. Sjaldgæft er að fólk verði ofbeldisfullt og bíti en þeir sem sinna fólki með hundaæði geta þurft að fá bólusetningu í forvarnarskyni.

Ef einstaklingur verður fyrir biti eða klóri dýrs sem getur verið að sé smitað af hundaæði er mikilvægt að bregðast fljótt við. Viðkomandi ætti að fara undir eins á sjúkrahús og fá:

  1. Sáraþvott með sápu og vatni í a.m.k. 5 mín., ekki má loka sárinu, einnig er rétt að baða sárið með sótthreinsandi lausn eftir þvottinn, t.d. joðlausn (povidone iodine) eða 70% alkóhóli. 
  2. Mótefni gegn hundaæði gefin í kringum sár og í vöðva – mótefni eru unnin úr blóði manna eða dýra sem hafa verið bólusett við sjúkdómnum. Þau eru erfið og dýr í framleiðslu og illfáanleg víða en þau kaupa tíma fyrir líkamann að byrja að mynda sjálfur mótefni í kjölfar bólusetningar.
  3. Bólusetningu við hundaæði í annan útlim en mótefnið. Bólusetningin er gerð í húð eða í vöðva. Þetta þarf að endurtaka á degi 3, 7, 14 og 28 (síðasta skammtinum er stundum sleppt ef viðkomandi hefur fengið mótefni).
  4. Sýklalyf vegna baktería sem dýrin geta borið óháð hundaæðinu. 
  5. Stífkrampasprautu ef langt síðan fékk síðast.

Einstaklingur sem hefur fengið hundaæðibólusetningu áður sleppur við mótefni og þarf ekki nema í mesta lagi tvo skammta af bóluefni í viðbót (dagar 0, 3) en áfram er mikilvægt að leita strax til læknis til að fá viðeigandi meðferð.

Ef töf verður á að fara á sjúkrahús, t.d. ef barn segir ekki strax frá biti eða ekki er hægt að komast fljótt á sjúkrahús er rétt að fara við allra fyrsta tækifæri. Ef einkenni eru komin fram er í flestum tilvikum of seint að reyna að bjarga viðkomandi.

Bólusetning við hundaæði
Til er bólusetning við hundaæði en ekki er ástæða til að bólusetja alla skammtímaferðalanga á svæði þar sem hundaæði fyrirfinnst. Sjúkdómurinn er afar hættulegur og engan tíma má missa við að leita meðferðar ef grunur er um að einhver hafi verið útsettur. Því getur verið ástæða til að bólusetja þá sem fara í ferðalög um afskekkt svæði þar sem meðferð eftir bit gæti verið ófáanleg eða nokkurra daga ferðalag þangað sem meðferð fengist. Einnig ættu allir sem vinna með villt dýr að vera bólusettir. Börn sem fara í ferðalög um svæði þar sem töluvert er um hundaæði eru ólíklegri en fullorðnir til að segja frá bitum og er því lægri þröskuldur fyrir bólusetningu þeirra.
Sjá nánar bólusetningar ferðamanna hér á vef Embættis landlæknis.

 

Hundaæði er tilkynningarskyldur sjúkdómur til sóttvarnalæknis, en til þeirra teljast sjúkdómar sem ógnað geta almannaheill.

Þegar grunur vaknar um hundaæði eða slík sýking er staðfest ber læknum, forstöðumönnum rannsóknastofa, sjúkradeilda og annarra heilbrigðisstofnana að senda sóttvarnalækni upplýsingar án tafar og skv. nánari fyrirmælum sótt­varna­læknis.

Síðast uppfært 28.04.2017