Hérasótt (tularemia)

Hérasótt (Tularemia) er alvarlegur smitsjúkdómur sem stafar af bakteríu sem heitir Francisella tularensis. Sýkingin berst frá dýrum í menn og helstu smitferjur (vector) bakteríunnar eru dýr af héraætt, blóðmaurar, flugur og moskítóflugur. Baktería þessi hefur tvær undirtegundir, tegund B sem er í Evrópu, Asíu og Norður-Ameríku og tegund A sem er skæðari en tegund A, en er eingöngu í Norður-Ameríku.

Faraldsfræði
Hérasótt er ekki landlægur sjúkdómur á Íslandi og smit af innlendum uppruna hefur ekki greinst hér á landi. Sýkingin er hins vegar landlæg í Finnlandi, Noregi og í Svíþjóð, en er sjaldgæfari í Danmörku. Hérasótt er nokkuð algeng víða í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu. Sýkingin er algengari yfir sumarmánuðina í tengslum við veiðar og útvist, þó hún geti einnig komið upp á öðrum árstíma.

Smitleiðir og meðgöngutími
Hérasótt getur smitast frá dýrum til manna en ekki manna á milli. Helstu smitleiðir eru:

• Með skordýrabiti,
• með snertingu við sýkt dýr,
• við innöndum á ryki sem er mengað með þvagi eða saur frá sýktu dýri,
• með neyslu mengaðrar fæðu og vatns.
 

Einkenni koma venjulega fram 3-5 dögum eftir smit, en getur verið allt frá 2-14 daga. Einstaklingur sem sýkst hefur af hérasótt einu sinni myndar ævilangt ónæmi fyrir bakteríunni.

Einkenni sjúkdómsins
Einkenni koma oftast snöggt og líkjast inflúensueinkennum þ.e. með háum hita, kuldahrolli, slappleika, útbreiddum verkjum í líkamanum, höfuðverk og ógleði. Við skordýrabit getur myndast ljótt sár og bólga í kringum sárið auk bólgu í nærliggjandi eitlum með tilheyrandi verkjum. Bakterían getur valdi svæsinni kverkabólgu með eða án sáramyndunar. Berist smit með mengaðri fæðu í meltingarveginn veldur það sárum magaverkjum, uppgangi og niðurgangi. Smit getur borist um öndunarvegi og valdið lungnabólu.

Greining
Greining byggir á sjúkdómseinkennum og blóðrannsókn.

Meðferð
Notuð eru sýklalyf til að uppræta sýkingu. Fara þarf sérstaklega varlega við meðhöndlun opinna sára og gæta fyllsta hreinlætis og sýkingavarna.

Forvarnir
Felast fyrst og fremst í að forðast bit skordýra t.d. með klæðnaði eða fælum. Gæta varkárni í meðferð og neyslu matvæla sem gætu verið menguð. Forðast að anda að sér úða sem gæti innihaldið bakteríuna.

 

Tilkynningarskylda - skráningarskylda
Hérasótt (tularemia) er tilkynningarskyldur sjúkdómur. Tilkynningarskyldir sjúkdómar eru þeir sem náð geta mikilli útbreiðslu í samfélaginu og jafnframt ógnað almannaheill. Læknum ber að tilkynna sóttvarnalækni um einstaklinga sem veikjast af hérasótt með persónuauðkennum hins smitaða en einnig berast tilkynningar til sóttvarnalæknis frá rannsóknarstofum sem staðfesta sjúkdómsgreininguna. Tilgangur tilkynningar um smitsjúkdóm er að hindra útbreiðslu smits með markvissum aðgerðum t.d. með einangrun, meðferð smitaðra og rakningu smits milli einstaklinga. Til þess að fullnægja þessum skilyrðum verða upplýsingar um líklegan smitunarstað, smitunartíma og einkenni að fylgja tilkynningum. Þannig má tengja smitaða einstaklinga með faraldsfræðilegum hætti, meta áhrif smitsins og grípa til viðbragða.

Síðast uppfært 21.11.2016