Hlaupabóla (Varicella-Zoster)

Hlaupabóla orsakast af varicella zoster (herpes zoster) veiru sem er skyld herpes simplex (frunsu) veirunni. Yfirleitt er um vægan sjúkdóm að ræða en í einstaka tilfellum getur hlaupabóla orðið að alvarlegum sjúkdómi. Í kjölfar hlaupabólusýkingar tekur veiran sér bólfestu í taugum líkamans og liggur þar dulin. Hún getur síðar tekið sig upp og valdið svokölluðum ristli sem einkennist af sársaukafullum staðbundnum útbrotum.

Faraldsfræði
Hér á landi fá nánast allir hlaupabólu einhvern tímann á lífsleiðinni en á suðlægari slóðum er sjúkdómurinn ekki eins algengur. Íslensk rannsókn sem birt var 2009 (sjá tengil hér að neðan) leiddi í ljós að 97,5% íslenskra barna mynda mótefni gegn hlaupabólu á aldrinum 1–10 ára og 50% á aldrinum 1–4 ára. Því er ljóst að mikill fjöldi íslenskra barna fær hlaupabólu á leikskólaaldri.

Hlaupabóla virðist ekki ganga í stórum faröldrum eins og margir aðrir barnasjúkdómar en er viðvarandi í samfélaginu allt árið. Árstíðabundnar sveiflur eru þó oft á tíðni sjúkdómsins og eiga flest tilfelli sér stað um miðjan vetur fram á vor.

Einkenni sjúkdómsins
Sjúkdómurinn varir í 7–10 daga hjá börnum en lengur hjá fullorðnum. Oftast stafar engin hætta af sjúkdómnum og flestir fá hlaupabólu bara einu sinni á ævinni.

Sjúkdómurinn lýsir sér með útbrotum á bol og andliti til að byrja með en einnig geta þau komið fram í hársverði og á útlimum. Stundum berast útbrotin yfir í slímhúðir og kynfæri. Oft verður vart við slappleika og vægan hita í einn til tvo daga áður en útbrot koma fram og varir hitinn áfram hjá börnum og unglingum í 2–3 daga samhliða útbrotunum. Útbrotin byrja sem litlar rauðar bólur sem eftir nokkra klukkutíma verða að vessafylltum blöðrum, blöðrurnar verða síðan að sárum á 1–2 dögum, loks myndast hrúður og þær þorna upp. Nýjar bólur geta bæst við í 3–6 daga. Það er mjög mismunandi hversu mikil útbrot hver einstaklingur fær. Önnur einkenni geta verið höfuðverkur, særindi í hálsi, lystarleysi og mögulega uppköst.

Helstu fylgikvillar sem geta komið í kjölfar hlaupabólu eru húðsýkingar og lungnabólga. Í sumum tilfellum getur hlaupabóla valdið heilabólgu og hjartavöðvabólgu. Alvarlegar hlaupabólusýkingar eru algengari hjá unglingum og fullorðnum heldur en yngri börnum. Dauðsföll eru fátíð, en koma fyrir, jafnvel hjá áður hraustum börnum. Ónæmisbælandi sjúkdómar s.s. hvítblæði, sterameðferð (t.d. vegna astma; ekki innúðasterar) og ónæmisbælandi meðferð, s.s. eftir líffæraígræðslu eða vegna krabbameins, auka verulega hættu á alvarlegri hlaupabólu og fylgikvillum.

Á árinu 2009 birtist grein um faraldsfræði hlaupabólu á Íslandi og þá fylgikvilla sem sjást hjá íslenskum börnum. Þar kom fram að 58 börn höfðu verið lögð inn á Landspítala á 20 ára tímabili með alvarlega fylgikvilla hlaupabólu.

Ristill getur komið fram hvenær sem er eftir hlaupabólusjúkdóm, jafnvel endurtekið og þá oft á sama stað á líkamanum. Ristilútbrot eru yfirleitt staðbundin við dreifingarsvæði einnar húðtaugar. Þeim fylgir yfirleitt kláði en þau geta líka verið mjög sársaukafull og eru kölluð vítiseldur (helvetesild) á norsku. Yfirleitt ganga einkenni yfir á nokkrum vikum en örfáir fá viðvarandi taugakvilla í kjölfarið. Ef ristill kemur fram á höfði/í andliti getur hann valdið blindu.

Greining
Útbrot hlaupabólu eru einkennandi fyrir sjúkdóminn og byggir greiningin á þeim. Einnig er hægt er að greina veiruna með ræktun frá útbrotum eða með blóðrannsókn í vafatilvikum. Sama er að segja um ristil.

Smitleiðir og meðgöngutími
Hlaupabóla er mjög smitandi sjúkdómur og er algengastur hjá börnum. Sjúkdómurinn smitast á milli manna með úða frá öndunarvegum og með beinni snertingu við vessa frá útbrotum.

Meðgöngutími sjúkdómsins þ.e.a.s. sá tími sem líður frá því að einstaklingur smitast þar til hann fer að fá einkenni geta verið 10–21 dagur. Einstaklingur getur smitað aðra allt að þremur dögum áður en hann fær sjálfur útbrot og er smitandi þar til allar bólur hafa sprungið og þornað upp. Einstaklingur með ristil getur smitað aðra af hlaupabólu.

Hafi einstaklingur ekki fengið hlaupabólu eru 90% líkur á að hann fái sjúkdóminn veikist einhver á heimilinu meðan það eru 10–35% líkur að börn sem eru í skólaumhverfi smitist. Einstaklingar með ristilútbrot geta líka smitað út frá sér, en smithættan fyrir næma heimilismenn er í kringum 20%, mun minni en við hlaupabólu.

Meðferð
Meðferðin felst einkum í því að halda kyrru fyrir, drekka vel og að draga úr kláða. Hægt er að lina kláðann með köldum bökstrum eða böðum. Haframjöl, matarsódi og kartöflumjöl hafa verið notuð í bakstra eða út í böð til að draga úr kláða. Einnig eru fáanleg í apótekum áburðir og froður til útvortis notkunar sem draga úr kláðanum. Þessi lyf draga einungis úr kláðanum tímabundið og við notkun þeirra ber að hafa í huga að þau geta valdið sviða í stutta stund. Ef kláðinn verður svo mikill að hann truflar svefn barnsins, er hægt að gefa því kláðastillandi lyf, andhistamín, sem þó getur haft sljóvgandi áhrif. Rétt er að fá ráðleggingar læknis um val á slíku lyfi og viðeigandi skammt fyrir barnið. Hægt er að gefa hitalækkandi lyf en gæta verður þess að þau innihaldi EKKI asetýlsalisýlsýru (aspirín).

Einnig er hægt að meðhöndla hlaupabólu með sértækum veirulyfjum og best er að hefja meðferðina á fyrstu 1–2 dögum veikindanna. Slík meðferð á helst við hjá ónæmisbældum einstaklingum eða þeim sem umgangast ónæmisbælda einstaklinga eða aðra sem eru í hættu á alvarlegum sýkingum og fylgikvillum hlaupabólu.

Forvarnir
Árið 1995 kom á markað lifandi bóluefni gegn hlaupabólu sem er mjög virkt og öruggt. Töluverður áhugi hefur verið á notkun þess og hefur framboð ekki annað eftirspurn. Bólusetning gegn hlaupabólu er nú hluti af almennum bólusetningum barna á Íslandi sem fædd eru 2019 eða síðar. Bóluefni má áfram gefa eldri börnum og fullorðnum einstaklingum sem ekki hafa alvarlega ónæmisbælingu eða aðrar frábendingar, gegn lyfseðli og á kostnað einstaklinganna sjálfra.

Skráningarskylda
Hlaupabóla og ristill eru skráningarskyldir sjúkdómar og ber læknum því að tilkynna sóttvarnalækni um þann fjölda einstaklinga sem þeir greina með hlaupabólu og ristil. Margir leita ekki til læknis vegna hlaupabólu eða ristils og eru skráningar því vanáætlun á heildarfjölda tilfella hérlendis.


Leiðbeiningar um notkun bóluefna við hlaupabólu.

 

Aðrir vefir um hlaupabólu:

http://www.ecdc.europa.eu/en/healthtopics/varicella_infection/Pages/index.aspx

http://medicalcenter.osu.edu/patientcare/healthcare_services/infectious_diseases/chickenpox/Pages/index.aspx

 

Síðast uppfært 01.11.2019