Strongyloides stercoralis

Strongyloides stercoralis er þráðormur sem er algengur í hitabeltissvæðum en einnig á afmörkuðum svæðum í Evrópu og Bandaríkjunum. Við ríkjandi veðurfar og hreinlæti á Íslandi er nánast útilokað að ormurinn verði útbreiddur í mönnum hér á landi.

Lífsferill
Menn eru helsti hýsill þessa snýkils, en hann finnst einnig í hundum og köttum. Helsta smitleiðin í menn er í gegnum bera húð, þaðan berast lirfurnar með blóðrásinni til lungna, þar sem þær komast út í lungnablöðrurnar (alveoli). Frá lungnablöðrunum fara þær upp í kok, þar er þeim kyngt og þær berast niður í smágirni. Kvendýrin festast í slímhúð smágirnisins, verpa þar eggjum sem þroskast í lirfur sem síðan losna út í meltingarveginn. Lirfurnar berast ýmist út með saurnum eða endursýkja hýsilinn (manninn) með því að skríða gegnum slímhúð meltingarvegarins eða gegnum húð við endaþarmsop. Sami einstaklingur getur því endurtekið orðið fyrir sýkingu.

Smitleiðir og meðgöngutími
Menn smitast yfirleitt í gegnum bera húð, með því að ganga berfættir í jarðvegi sem er mengaður með lirfunni. Smit manna á milli og á milli hunda og manna eru þekkt, en sjaldséð. Tími frá smiti þar til hægt er að greina lirfuna í saur, eru oftast tvær til fjórar vikur.

Einkenni
Sýkingin er oft án einkenna en helstu einkenni við fyrsta smit eru staðbundinn kláði með roða og bólgu sem getur myndast þar sem lirfan fór inn um húðina. Nokkrum dögum síðar geta komið einkenni frá lungum með hósta og tveimur vikum eftir smit geta komið einkenni frá meltingarvegi (niðurgangur, hægðatregða, lystarleysi og kviðverkir).
Við langvinna sýkingu gætir stundum kviðverkja, niðurgangs og ofsakláða. Önnur hugsanleg einkenni eru ógleði, þyngdartap, uppköst og jafnvel hægðatregða. Greina má útbrot, einkum á rasskinnum, lærum og á spöng í kjölfar endursýkinga með lirfunni. Við langvinnar sýkingar má greina eosínófílíu í mörgum tilfella.
Í stöku tilfellum einkum við ákveðnar tegundir ónæmisbælingar getur sýkingin verið alvarleg. Algengasta ónæmisbælingin er sterameðferð, en meðferð með krabbameinslyfjum, illkynja blóðsjúkdómar og vannæring er einnig áhættuþættir fyrir alvarlega sýkingu. Fjöldi lirfa í meltingarfærum og lungum eykst og getur jafnvel dreift sér til annarra líffæra. Helstu einkenni eru frá öndunarfærum og meltingarvegi, rof á slímhúðum getur leitt til blæðinga og aukið líkur á að bakteríur berist út í blóðið með hættu á blóðsýkingu, lungnabólgu og heilahimnubólgu.

Greining
Greining er gerð með smásjárskoðun á saursýnum. Ef sterkur grunur er um sýkingu er hægt að taka blóðsýni í mælingar á mótefni gegn orminum.

Meðferð
Meðferð við staðfestum sýkingum eru ivermectin eða thiabendazol, skammtar eru aðlagaðir að alvarleika sýkingar.

Forvarnir
Dýr geta borið ýmsar sóttkveikjur og þess vegna skal ávallt gæta hreinlætis við umgengni og umönnun dýra. Tíður handþvottur er mikilvægasta smitvörnin, einkum fyrir máltíðir og matarundirbúning. Forðast skal að láta hunda sleikja andlit fólks. Saur hunda skal hreinsa upp, setja í plastpoka og síðan í sorptunnu.

Síðast uppfært 28.03.2012