Síkúngúnjasótt

Síkúngúnjasótt stafar af veiru sem fannst fyrst í Tansaníu og Úganda árið 1953. Veiruna er aðallega að finna í öpum en aðrar dýrategundir geta veikst af völdum hennar, þ. á m. menn.

Smitleiðir
Á þéttbýlum svæðum berst sjúkdómurinn frá manni til manns með moskítóflugum. Sú tegund moskítóflugna sem ber veiruna manna á milli er virkust á daginn, einkum í byrjun og lok dags.

Einkenni
Helstu einkenni sjúkdómsins eru hiti, liðverkir, vöðvaverkir og höfuðverkur. U.þ.b. helmingur sjúklinganna fær blæðingar, t.d. frá nefi og tannholdi. Sjúkdómurinn getur verið alvarlegur og leitt til dauða vegna öndunarbilunar, hjartabilunar eða heilahimnubólgu.

Faraldsfræði
Síkúngúnjasótt er landlæg á ákveðnum svæðum Afríku, Suðaustur-Asíu og á Indlandsskaga. Nýlega hefur sjúkdómurinn einnig greinst á Filippseyjum, Malasíu, Kampútseu, Suður-Indlandi og Pakistan. Sjúkdómsins varð vart á Kómóra-eyjum árið 2005 og hefur síðan greinst á Máritíus og Mayotte og síðast kom hann upp á frönsku eyjunni La Réunion í mars 2005. Þar náði sjúkdómurinn hámarki í febrúar 2006 en síðan hefur tilfellum stöðugt fækkað.

Sjúkdómurinn hefur greinst meðal ferðamanna í mörgum Evrópuríkjum, í Kína og Frönsku Guiana, sem komið hafa frá svæðum þar sem sjúkdómurinn er landlægur. Vitað er um hjúkrunarfræðing í Frakklandi sem sýktist við að taka blóð frá bráðveikum sjúklingi með síkúngúnjasótt.

Meðferð
Engin sértæk meðferð er til og einungis er unnt að beita bólgueyðandi meðferð gegn einkennum.

Fyrirbyggjandi meðferð
Vegna hættu á sýkingu á þessum tíma árs er ráðlagt að ófrískar konur, fólk með skert ónæmiskerfi og fólk sem þjáist af alvarlegum langvinnum sjúkdómum hafi samráð við lækna áður en þau ferðast til landsvæða þar sem sjúkdómurinn er landlægur svo unnt sé að grípa til fyrirbyggjandi ráðstafana. Allir ferðamenn sem ferðast til landa þar sem sjúkdómurinn er landlægur ættu að grípa til eftirfarandi ráðstafana til að minnka líkur á biti af völdum moskítóflugna á meðan þar er dvalið:

  1. Sofa undir mýflugnafælandi neti og bera jafnframt á sig mýflugnafælandi áburð eða úða. Klæðast skal síðbuxum og skyrtu eða bol með löngum ermum, einkum þegar mestar líkur eru á moskítóbiti, að morgni dags eða síðla dags. Mælt er með því að nota mýflugnafælandi efni sem byggjast á 30% DEET.
  2. Áður en mýflugnafælandi efni eru notuð ættu ófrískar konur og börn undir 12 ára aldri að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing.
  3. Ekki er mælt með því að bera mýflugnafælandi efni á börn sem eru undir 3 mánaða aldri. Þess í stað er bent á mýflugnanet sem eru með mýflugnafælandi efnum í.

 

 

Síðast uppfært 15.12.2016