Sígella

Fjórar tegundir Shigella eru til, S. dysenteriae, S. flexneri, S. boydii og S. sonnei. Sjúkdómsfelli af völdum Shigella greinast afar sjaldan hérlendis og eru þá ávallt í tengslum við ferðalög erlendis. Tíðni sýkinga á vesturlöndum er almennt lág, en sígellusýkingar eru mun stærra vandamál í þróunarlöndunum og leiðir þar árlega til dauða mörg hundruð þúsund barna. Sýkingin er einna helst vandamál þar sem mannmergð er mikil og hreinlæti er ábótavant. S. dysenteriae og S. boydii sem valda alvarlegustum einkennum er algengasta sýkingin í löndum þar sem hreinlæti er ábótavant en S. sonnei og S. flexneri sem valda mildari einkennum eru algengari á vesturlöndum.

Smitskammtur, þ.e. fjöldi baktería sem viðkomandi þarf að fá í sig, til að sýking geti orðið, er lítill eða einungis 10–100 bakteríur. Meðgöngutími sýkingar, þ.e. tími frá smiti þar til einkenna verður vart, eru 1–3 dagar í flestum tilfellum, en getur verið frá ½–4 sólarhringum. Bakterían hverfur oftast úr hægðunum án meðferðar á 1–4 vikum.

Smitleiðir
Vegna þess hve smitskammtur er lítill berst smitið auðveldlega beint manna á milli og getur smitast við kynmök. Ef handþvottur er ófullnægjandi situr bakterían eftir á höndum og undir nöglum og berst þannig áframt til annarra. Algengast er um beint smit innan fjölskyldu, á leikskólum, milli samkynhneigðra karla og á stofnunum fyrir andlega sjúka. Einnig getur sýkingin náð útbreiðslu í yfirfullum flóttamannabúðum og fangelsum.
Sýkillinn getur einnig borist frá smitandi einstaklingum í vatn og mat og er þá útbreiðslan mun meiri en við beint smit. Í þróunarlöndunum eru vatns- og matarbornar sýkingar stærra vandmál en í hinum vestræna heimi. Mengun á vatni verður þá oftast þegar hreinlæti umhverfis vatnsból er ábótavant og saur berst í vatnið. Mengun á matvælum kemur ýmist frá höndum sýkts einstaklings eða við skolun t.d. grænmetis með menguðu vatni.

Einkenni
Niðurgangur sem oft er blóðugur og slímugur, kviðverkir, ógleði, uppköst og hiti, sem gengur í flestum tilfellum yfir á 7 dögum. Töluvert vökvatap með hægðum og uppköstum getur leitt til alvarlegs vökvaskorts.

Fylgikvillar
Fylgikvillar sem eru fremur sjaldséðir eru m.a. alvarlegur vökvaskortur og blóðsýking. Sumir stofnar framleiða eiturefni (toxín) sem getur leitt til nýrnabilunar.

Greining
Saursýni í ræktun.

Meðferð
Þegar kunnungt er um sígellusýkingu ber að meðhöndla með sýklalyfjum, en meðferðin dregur bæði úr einkennum og styttir tímann sem viðkomandi er smitberi og minnkar hættu á smiti til annarra.

Forvarnir
Á við dvöl í löndum þar sem sígella er algengari og hreinlæti gæti verið ábótavant.

 • Kaupið drykkjarvatn á flöskum.
 • Þvoið hendur fyrir matreiðslu og máltíðir, eftir salernisferðir og snertingu við dýr.
 • Vel steikt kjöt, sérstaklega ef það er hakkað, dregur úr líkum á smiti.
 • Forðist neyslu ógerilsneyddrar mjólkur og afurða hennar.
 • Mikilvægt er að þvo grænmeti og ávexti vel áður en þeirra er neytt.
 • Forðist að gleypa ómeðhöndlað yfirborðsvatn í sundlaugum, heitum pottum, gosbrunnum, ám, lækjum og tjörnum.
 • Ef grunur leikur á að vatn sé mengað með sígellu er hægt að forðast smit með suðu drykkjarvatnsins í a.m.k. eina mínútu.
 • Æskilegt er að þvo og/eða afhýða hrátt grænmeti og ávexti fyrir neyslu.
 • Bóluefni gegn sígellu er ekki til.


Viðbrögð við einstökum sýkingatilfellum eða hópsýkingu/sýkingahrinu

 • Þeir sem eru með staðfesta sýkingu mega ekki fara í sund eða potta á meðan einkenni eru til staðar (sérlega mikilvægt fyrir bleiubörn).
 • Kanna þarf hvort fleiri eru með einkenni og taka sýni frá þeim sem eru með einkenni sígellusýkingar.
 • Ef barn í dagvistun greinist með sígellu skal hafa samband við dagvistunina ef barnið dvaldi þar dagana fyrir veikindi eða var með einkenni sýkingarinnar í dagvistuninni.
 • Ef grunur leikur á hópsýkingu eða sýkingahrinu skal hafa samband við umdæmis-/svæðislækni sóttvarna og heilbrigðiseftirlit á viðkomandi svæði, t.d. ef tvö eða fleiri tilfelli greinast.
 • Þeir sem greinast með sígellu og eru ekki í starfi með aukna smithættu eða áhættu, eiga ekki að vera í vinnu meðan þeir eru með einkenni. Þeir mega koma aftur í vinnu þegar þeir hafa verið einkennalausir í tvo sólarhringa. Nauðsynlegt er að vera með góða handhreinsun fyrstu vikurnar eftir smit og ekki tilreiða mat fyrir aðra fyrr en þremur vikum eftir að einkenni hverfa.
 • Sígellusýking er lögum samkvæmt tilkynningarskyldur sjúkdómur til sóttvarnalæknis.

Störf með aukna smithættu eða áhættu og dagvistun barna

Eftirfarandi hópar, sem teljast vera með aukna smithættu eða starfa við ummönnun mjög veikra sjúklinga, mega snúa aftur til vinnu eða í dagvistun barna þegar þeir hafa fengið viðeigandi sýklalyfjameðferð og skilað einu neikvæðu saursýni. Ef engin meðferð er gefin skal skila tveimur neikvæðum saursýnum. Fyrsta sýnið má taka í fyrsta lagi þremur dögum eftir að einkenni hverfa eða viku eftir að sýklalyfjameðferð lauk og endurtaka má sýnatöku 24 klst. síðar.

 • Þeir sem starfa við framleiðslu, flutning eða framreiðslu matvæla og eru í beinni snertingu við ópökkuð matvæli.
 • Heilbrigðisstarfsmenn sem eru í beinum samskiptum við sjúklinga sem eru með alvarlega ónæmisbælingu, eða eru inniliggjandi á vökudeild eða gjörgæslu.
 • Börn í dagvistun.

Heilbrigðisstarfsmenn sem eru ekki í beinni umönnun ofangreindra sjúklingahópa mega koma til vinnu þegar þeir hafa verið einkennalausir í tvo sólarhringa, en mega ekki tilreiða mat fyrir sjúklinga, fyrr en þeir hafa skilað neikvæðum saursýnum eins og lýst er fyrir ofan.

 

Tölfræðilegar upplýsingar um Sígellu

 

Síðast uppfært 09.12.2019