Salmonella

Salmonella er baktería með yfir 2000 afbrigði (sermisgerðir). Algengastar hér á landi eru S. Enteritidis og S. Typhimurium og er uppruni smits oftast af erlendum toga. Stærstu hópsýkingarnar hérlendis á síðastliðnum árum voru árið 1996 af völdum S. Enteritidis í rjómabollum og árið 2000, þegar S. Typhimurium barst með jöklasalati.

Margar sermisgerðir sýkja bæði menn og fjölda dýrategunda, þær algengustu eru m.a. nautgripir, svín og hænsnfé en einnig bera skjaldbökur og slöngur oft bakteríuna. Víða erlendis valda egg menguð með S. Enteritidis sýkingum í fólki.

Smitleiðir
Helsta smitleiðin er með menguðum matvælum. Beint smit manna á milli er fremur sjaldséð en kemur einna helst fyrir hjá einstaklingum sem annast sjúklinga með Salmonella sýkingu, ef handþvottur er ófullnægjandi.

Einkenni
Niðurgangur, ógleði, uppköst, kviðverkir og hiti, sem gengur í flestum tilfellum yfir á á 4–5 dögum. Ef sýkingin hefur dreift sér til líffæra utan meltingarfæra geta komið einkenni frá sýkingarstað.

Meðgöngutími sýkingar, þ.e. tími frá smiti þar til einkenna verður vart, er 1–3 dagar í flestum tilfellum, en getur verið allt frá 6 klst. upp í 10 daga.

Fylgikvillar
Fyrir kemur í fáum tilfellum að bakterían fer út í blóðið og veldur sýkingum í líffærum utan meltingarfæranna, t.d. í hjarta og æðakerfi, milta, lifur og gallgöngum.
Meðal beratími (sá tími sem baktería er í saur) eftir sýkingu er 5–6 vikur en getur verið margir mánuðir og jafnvel ár.

Greining
Langoftast er sent saursýni í ræktun. Við sýkingar í blóði eða öðrum lífærum þarf að senda sýni í ræktun frá sýkingarstað.

Meðferð
Í flestum tilfellum er meðferð með sýklalyfjum óþörf, en stundum reynist nauðsynlegt að gefa vökva í æð til að bæta upp vökvatap.

Forvarnir
Salmonella er lögum samkvæmt tilkynningarskyldur sjúkdómur og ber að tilkynna til sóttvarnalæknis.


Þegar kunnugt er um smit ber að hafa eftirfarandi í huga:

  • Góður handþvottur minnkar líkur á að smitið berist í aðra einstaklinga og er afar mikilvægur.
  • Forðast ber að framreiða mat fyrir aðra á meðan á veikindum stendur. 
  • Sýktur einstaklingur er mest smitandi þegar hann er með niðurgang og er því ráðlegt að vera heima meðan einkenni gera vart við sig.
  • Eigið salerni er æskilegt en ekki nauðsyn.
  • Hafa ber í huga að smitaður einstaklingur ber bakteríuna að meðaltali í 5–6 vikur og skal því að gæta varúðar a.m.k. þann tíma.
  • Engra eftirræktana er þörf nema sá smitaði starfi við matvælaframleiðslu, á sjúkrahúsi eða við umönnun barna.

 

Smit hjá einstaklingum sem vinna við matvælaframleiðslu:

  • Ef mögulegt er skal viðkomandi fá önnur verkefni en við vinnslu matvælanna þar til hann telst ekki smitandi lengur.
  • Ef ekki er mögulegt að fást við önnur verkefni skal viðkomandi veitt leyfi frá störfum.
  • Eftirræktanir skulu teknar þar til 3 saurræktanir í röð eru neikvæðar fyrir salmonellu og telst viðkomandi þá laus við smit.

 

Tölfræðilegar upplýsingar um Salmonellu

Síðast uppfært 28.06.2019