Mítilborin heilabólga (tick-borne viral encephalitis)

Mítilborin heilabólga (Tick-borne viral encephalitis, TBE) stafar af veirusýkingu sem leggst á miðtaugakerfið. Sjúkdómurinn hefur færst í vöxt undanfarna þrjá áratugi og er að finna víða í Evrópu og Asíu. Hann berst í menn þegar sýktir skógarmítlar (Ixodes ricinus og Ixodes persulcatus) bíta til að nærast á blóði (sjá umfjöllun um Lyme-sjúkdóm).

Í Evrópu er sjúkdóminn einkum að finna í Austurríki, Þýskalandi, Suður- og Mið-Svíþjóð, Frakklandi (Alsace-héraði), Sviss, Noregi, Danmörku, Póllandi Rússlandi og víðar.

Sjúkdómsins hefur aldrei orðið vart á Bretlandseyjum eða á Íslandi.

Sjúkdómseinkenni
Heilabólgan lýsir sér sem sjúkdómur sem kemur í tveimur hrinum. Einkenni fyrri hrinunnar eru hiti, þreyta, höfuðverkur, vöðvaverkir og ógleði. Einkenni seinni hrinunnar, sem koma 1-20 dögum eftir að sú fyrri gengur yfir, eiga rætur að rekja til sýkingar í miðtaugakerfi (bólga í heila, mænu og heilahimnum). Einkennin geta lýst sér sem höfuðverkur, krampar, lamanir, og til lengri tíma í minnisleysi og geðröskunum, Í Evrópu er dánartíðnin um 1% hjá þeim sem veikjast en mun fleiri geta fengið langvinn einkenni frá miðtaugakerfi.

Hægt er að forðast þessa sýkingu með því að nota mýflugnafælandi áburð og hyljandi klæðnað. Engin sértæk meðferð er til en til eru bóluefni gegn sjúkdóminum sem nota má þar sem sjúkdómurinn er landlægur.

Mynd 1

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Landfræðileg dreifing skógarmítla (Ixodes tegunda) í Evrópu og Asíu
Ixodes ricinus (blá svæði) er að finna í Vestur-Evrópu en Ixodes persulcatus (grá svæði)er að finna í Asíu. Á grænu svæðunum er báðar tegundir skógarmítlanna að finna. Punktalínan táknar það svæði þar sem skógarmítlar sýktir heilabólguveiru halda sig. Þeir eru þó afar misdreifðir innan þessara svæða.

Heimild: Lindquist L & Olli Vapalahti O. Lancet 2008; 371: 1861-71.

 

Síðast uppfært 27.03.2012