Listería

Listeria monocytogenes er baktería sem er víða í náttúrunni og finnst hjá fjölda dýrategunda. Hérlendis hefur hún verið til vandræða í sauðfé vegna fósturláts hjá kindum. Til eru 13 tegundir Listeria en einungis Listeria monocytogenes er sjúkdómsvaldandi í mönnum. Helsta smitleið bakteríunnar er með matvælum.

Listería monocytogenes veldur nánast aldrei sjúkdómi hjá fullfrísku ungu fólki þrátt fyrir að það neyti matvæla sem eru menguð með bakteríunni. Ákveðnir þættir auka mikið líkur á ífarandi sýkingu: Hár aldur, mikil áfengisneysla og ónæmisskerðing (t.d. krabbameinssjúklingar og sjúklingar á ónæmisbælandi lyfjum). Nýfædd börn og fóstur í móðurkviði eru í aukinni hættu á að sýkjast, sem getur leitt til fósturláts eða dauða.

Meðgöngutími sýkingarinnar, þ.e. tíminn sem líður frá smiti til sjúkdómseinkenna, er oftast um 3 vikur en getur verið allt frá 3–70 dagar.

Smitleiðir
Listeria moncytogenes smitast með matvælum sem ýmist hafa verið menguð frá upphafi eða mengast hefur í framleiðsluferli. Helstu matvælategundirnar sem tengst hafa sýkingum eru mjúkir og ógerilsneyddir ostar, kaldreyktur og grafinn lax og í Bandaríkjunum hefur bakterían fundist í niðursneydddum kalkúni og kjúklingum tilbúnum til neyslu.

Einkenni
Við ífarandi sýkingu af völdum Listeria monocytogenes getur bakterían borist út í blóðið og valdið blóðsýkingu, en einnig sækir hún í miðtaugakerfið og leiðir í þeim tilfellum til heilahimnubólgu. Einkenni geta í upphafi sjúkdóms verið mismikil og lýst sér sem vanþrif og léleg matarlyst hjá nýfæddum börnum. Einkennin geta líka verið bráð með hita, höfuðverk, ógleði, uppköstum og alvarlegu blóðþrýstingsfalli. Hjá fóstrum sem sýkjast í móðurkviði getur sýkingin breiðst út til margra líffæra og fylgja því afar slæmar horfur. Barnshafandi konur eru gjarnan einkennalausar eða með vægan hita en þrátt fyrir það getur sýkingin leitt til fyrirburafæðingar eða fósturláts.

Greining
Greining fæst með ræktun bakteríunnar úr blóði, mænuvökva, fósturvatni eða legköku.

Meðferð
Hægt er að meðhöndla sýkinguna með sýklalyfjum. Batahorfur fullorðinna geta verið nokkuð góðar en eru verri hjá nýfæddum börnum og fóstrum.

Forvarnir
Fræðsla til verðandi mæðra og fullorðinna um áhættuþætti og um fæðutegundir sem ber að forðast á meðgöngu.
Bóluefni gegn Listeria monocytogenes er ekki til.
Listeria monocytogenes er lögum samkvæmt tilkynningarskyldur sjúkdómur til sóttvarnalæknis.

 

Tölfræðilegar upplýsingar um Listeríu

 

Síðast uppfært 06.01.2020